Janúarprjónið

Þá er fyrsti mánuður ársins liðinn og ég búin með nokkur verkefni. Ég setti mér það markmið að prjóna 1 vettlingapar í hverjum mánuði þetta árið. Það er svo mikið til af fallegum vettlingamunstrum að maður fær nánast valkvíða 🙂

Í janúar ætla ég bara að prjóna úr garni sem ég á nú þegar og þar kem ég sko alls ekki að tómum kofanum 🙂

Byrjaði á þessari húfu strax á nýársdag þar sem hún þurfti að vera tilbúin 3. janúar. Fótboltahúfan prjónuð með tvöföldu prjóni og er gífurlega vinsæl hjá strákum og stelpum. Það er líka svo gaman að prjóna hana í litum hvers fótboltafélags fyrir sig. Þessi rauð og svört eins og t.d. Knattspyrnufélagið Víkingur er með í sínum búningi.

Garn: Dale Baby
Prjónar nr. 3,5

fótboltahúfa Dale Baby_saman_merkt

Síðan urðu þessir vettlingar fyrir valinu, sá þá á prjónasíðu á Facebook og uppskriftin er frí á Ravelry og langaði mig að hafa þá hvíta og sjálfmunstrandi garn með. Ég átti garn sem ég hafði keypt í Hagkaupm Baby ull frá Gjestal og notaði prjónar nr. 2,5.  Aftur á móti varð ég ekkert sérstaklega ánægð með fyrsta vettlinginn og hef ekki enn prjónað hinn.

Gjestal Baby ull saman

Svo sá ég þessa skemmtilegu uppskrift á síðu á Facebook sem Bitta Mikkelborg heldur úti. Hún gaf þessa uppskrift, sem heitir Myria í tilefni að því að 10.000 like voru komin á síðuna hennar. Það er leikur í gangi þegar þú prjónar þetta munstur þar sem þú kastar teningi og prjónar það munstur sem hefur sama númer og kemur upp á teningnum hverju sinni. Svo ef þú prjónar fleiri en 1 par af þessum vettlingum verða þau sennilega ekki í sömu röð munstrin, mér þykir þetta skemmtileg hugmynd hjá henni.

Garn: Arwetta Classic
Prjónar nr. 2,5

Myria_Arwetta Classic_merkt

Hún Bitta er í miklu uppáhaldi hjá mér og þessa vettlinga gefur hún fría á Ravelry. Ég ákvað að prófa í fyrsta skipti að prjóna kaðla án hjálparprjóns/kaðlaprjóns og það var bara mjög þægilegt, var búin að mikla það svo fyrir mér.  Uppskriftin gerir ráð fyrir Nepal eða Lima garni frá Drops og þar sem ég á nokkrar Nepal dokkur þá skellti ég í eitt par 🙂

Garn: Drops Nepal
Prjónar nr. 4

Bittas mittens_Drops Nepal_merkt

Þar sem ég hef verið í öðru verkefni á daginn og nánast bara prjónað á kvöldin í janúar valdi ég þessa peysu sem er fljótleg og þægilegt að prjóna yfir sjónvarpinu. Þetta munstur hefur verið gífurlega vinsælt í Færeyjum undanfarin ár. Þegar ég fór þangað sumarið 2012 voru í Þórshöfn sennilega um 70% kvennþjóðarinnar í svona peysum með alls konar útfærslum. Stjarnan er gamalt færeyskt munstur. Ég hef prjónað tvær heilar úr léttlopa fyrir frænkur mínar en prjónaði þessa á Maíu Sigrúnu í stærð 1 árs, engin uppskrift bara sniðið utan um stjörnumunstrið.

Garn: Navia Duo
Prjónar nr. 4

Stjörnupeysa á Maíu_Navia Duo (1)merkt

Maía mín er alltaf svo köld á höndunum og vantaði vettlinga til að sofa með sem hún gæti ekki rifið af sér. Svo amma prjónaði þessa eitt kvöldið úr afgangsgarni sem ég átti.

Vettlingar á Maíu1_merkt

Þessi ágæta silkihúfa er búin að vera prjónuð og rakin upp aftur og aftur, ég bara náði ekki réttri stærð fyrir Maíu. Ýmist var hún alltof stór eða alltof lítil. Ótrúlegt þegar svona smáverkefni vefjast fyrir manni. Ég prjónaði hana í hring úr silkigarni sem Elín mín átti afgangs en hana langaði að eiga hjálmhúfu sem passaði strax á litlu prinsessuna sína.

Garn: Jaipur fino
Prjónar nr. 2,5

Silkihúfa saman

Ég er bara nokkuð sátt við útkomu janúarmánaðar og það sér ekki á garnbirgðum mínum að ég hafi tekið af þeim til að prjóna þessi verkefni. Ég er með langtímaverkefni á prjónunum líka, sófateppi fyrir Aþenu og Móra úr tvöföldu prjóni. Gott að hafa svona að grípa í þegar maður vill taka því rólega.

Prjónakveðja
– Guðrún

Klárað í janúar

Ég setti mér óformleg markmið varðandi handavinnu fyrir árið 2014. Eftir bestu getu ætla ég að klára þau verkefni sem ég byrja á. Ég er nefninlega alltof gjörn á að byrja á nýjum verkefnum áður en ég klára þau sem ég er byrjuð á. Þessi ókláruðu safnast svo saman og klárast aldrei. Einnig ætla ég að fara eftir fleiri uppskriftum. Lífið verður svo leiðinlegt ef maður er ekki að læra neitt nýtt. Og vel skrifaðar hekl uppskriftir að skemmtilegum verkefnum kenna manni nýjar aðferðir og tækni.

Þessi færsla er því um öll verkefnin sem ég heklaði eftir uppskriftum og kláraði í janúar. Alveg óvart eru allar flíkurnar bleikar. Kem upp um hversu hrifin ég er af bleiku.

***

Mustard Bow Dress handa Þulu Björg
Uppskrift: Mon Petit Violon
Garn: Drops Merino Extra Fine, Föndra
Magn: 4 dokkur
Nál: 5 mm

Æðislegur kjóll. Hef aldrei heklað kjól áður og er mjög ánægð með útkomuna. Var þó alveg heillengi að finna út heklfestu samkvæmt uppskriftinni og var orðin frekar pirruð. Uppskriftin sagði nál nr. 3,25 en ég endaði á að nota nál nr. 5 og hefði getað farið stærra. Langar samt að gera annan kjól handa Maíu minni.

image

image

***

Þumalínur handa Heiðu
Uppskrift: María heklbók
Garn: Dale Freestyle, A4
Magn: 3 dokkur í 2 pör af vettlingum
Nál: 5,5 mm & 6 mm

Skemmtilegir vettlingar og fljótheklaðir. Vanir heklarar gætu klárað eitt par á kvöldstund. Ég kláraði par á tveim kvöldstundum með ungabarn á arminum. Uppskriftin mælir með Léttlopa en ég er ekki nógu hrifin af lopanum svo ég keypti Freestyle garnið frá Dale og það kemur æðislega vel út í þessum vettlingum. Svo er það til í svo flottum litum. Heklaði seinni parið með aðeins stærri nál og því eru þeir stærri.

image

image

***

Dragonfly Slouch Hat handa Aþenu og Stínu
Uppskrift: Tara Murray Designs
Garn: Dale Baby Ull, A4
Magn: 1 dokka í hvora húfu
Nál: 3,75 mm

Tara bloggar undir nafninu Mamachee og hannar alveg virkilega skemmtilegar flíkur. Ég er alltaf að sjá nýjar myndir frá henni og langar að hekla en aldrei látið verða af því. Þegar ég sá þessa húfu sló ég loks til og keypti uppskriftina. Ég var mjög fljót að hekla húfurnar enda uppskriftin vel skrifuð. Aþena tekur sig vel út með sína húfu sem hún fékk í afmælisgjöf.

image

image

image

Bleikar-hekl-kveðjur
Elín c“,)

Heklaður dúkur

Ég heklaði þennan dúk í jólagjöf handa sænsku fósturforeldrum mannsins míns, en þau heimsóttu okkur yfir áramótin.

017

Uppskrift: Fann ég hér á Pinterest.
Garn: Heklgarn úr Litlu Prjónabúðinni
Nál: 1,75 mm

019

Þegar ég sá heklgarnið í Litlu Prjónabúðinni og litaúrvalið þá langaði mig til þess að kaupa dokku af hverjum lit.
Ég náði að hemja mig og varð þessi fallegi fjólublái litur fyrir valinu.

Mamma hló að mér og sagði að venjulega er verkefnið valið fyrst
en ég vel mér fyrst garn og finn svo út hvað ég get gert úr því.

185

Þegar ég var að hekla dúk í fyrsta sinn fór það alveg afskaplega í taugarnar
á mér að hann skildi vera svona krumpaður.
Ég hélt að jafnvel væri ég að gera eitthvað vitlaust.
En það er partur af programmet að strekkja og forma heklaða dúka.

186

Því langaði mig til að skella með myndum af því hvernig dúkurinn leit út fyrir…

187

…og á meðan hann var í mótun.
Til þess að móta hann notaði ég einfaldlega vatn og lét hann þorna.
Þannig heldur hann lögun sinni og er mjúkur.

022

Við hjónin saumuðum einnig út þessa mynd handa Svíunum.
Maðurinn minn komst að því fyrir jólin að hann hefði gaman af því að sauma út og er þetta þriðja myndin hans.
Hann saumaði út stafina en ég saumaði út borðana.

024

Þetta er sænska og myndi þýðast á íslensku: Þar sem rassinn hvílir þar er heimilið.
En sú setning er í uppáhaldi hjá mér.

Ef þig langar að sauma út þinn eigin texta þá mæli ég með þessari síðu Stitch Point.

Það verður svo að fylgja sögunni að Svíarnir voru hæstánægð með gjafirnar.

Elín c“,)

Silkitoppur – hekluð djöflahúfa

image

Uppskrift: María heklbók
Garn: Silkbloom úr Ömmu Mús
Nál: 3 mm

Mig hefur svo lengi langað að kaupa þetta garn en ekki tímt því nema að hafa ákveðið verkefni í huga. Þegar ég sá þessa húfu þá var ég ekki lengi að hlaupa út í búð og kaupa það.

Mér fannst örlítið flókið að þurfa að telja svona mikið í upphafi uppskriftar en ég var ekki lengi að finna taktinn í talningunni og þá var þetta ekkert mál.

Húfan er í stærð 6 – 12 mánaða og því er hún enn of stór. Maía verður fín með hana í sumar.

Hekl kveðja
Elín

Annáll 2013

Árið 2013 var viðburðaríkt og skemmtilegt hjá okkur mæðgum og Handverkskúnst. Við sinntum handavinnu allt árið, en aðeins brot af því lenti á blogginu. Við settum inn þónokkrar uppskriftir á bloggið bæði fríar og til sölu sem fellu vel í kramið. Námskeiðin okkar gengu glimmrandi vel og voru vel sótt.

Við erum ekkert nema sáttar og erum mjög spenntar fyrir því sem nýja árið hefur að bjóða.
Þessi annáll er samantekt á því sem við mæðgur blogguðum um á árinu.
Við þökkum samfylgdina og vonumst til að þið haldið áfram að kíkja á okkur.

Elín (sem skrifar) & Guðrún

Janúar

Ég lagði í verkefnið mitt 30 heklaðir ferningar á 30 dögum. Það tókst og varð afraksturinn þessi.

30/30 - samantekt

Ég stofnaði einnig grúppuna Ferningaför 2013 þar sem markmiðið var að hekla 1-4 ferninga í hverjum mánuði. Framan af gekk það vel en ég gafst þó upp eftir maí mánuð. Eiginlega búin að fá nóg af ferningum í bili.

Ferningafjör (mars) 2013

Febrúar

Ég heklaði mína fyrstu amigurumi fígúru. Kolkrabbinn vakti mikla lukku hjá Móra mínum. Uppskriftina er að finna í bókinni Heklað fyrir smáfólkið.

Hanni Kolkrabbi

Mars

Ég keypti tvo kolla í Góða Hirðinum og heklaði á þá sessur. Einn kollur handa Móra og annar fyrir Aþenu frænku.

Næsti kollur takk

Ég byrjaði að hekla tvöfalt hekl og líkaði frekar vel.

Tvöfalt hekl

Maí

Við mamma tókum þá ákvörðun að blogga saman undir nafninu Handverkskúnst. Allt efni af síðunni Handóð færðist hingað.

Dundur

Mamma bloggaði í fyrsta sinn og setti inn fría uppskrift af þessari prjónuðu lambhúshettu.

lambúshetta

Júní

Ég fann þennan æðislega dúk í Góða Hirðinum og gerði afrit. Finnst þeir frekar flottir.

014

Mamma hefur prjónað heilan helling af sjölum og bloggaði um þau.

wingspan

Mamma prjónaði peysur og kórónu húfur á ömmugullin. Uppskriftin af húfunum er fríkeypis á síðunni okkar.

024 copy

Júlí

Ég byrjaði að hekla teppi handa ófæddri dóttur minni.

6umf

Ég heklaði krukku handa Þorvaldi lita vini mínum sem vildi svo eignast eina slíka.

008

Ágúst

Við fjölskyldan máluðum með garni. Fín leið til að nýta garnenda sem er annars hent.

077 copy

Við mamma tókum þátt í því að graffa Hlemm á Menningarnótt.

133 copy

Ég átti helling af hekli í skúffunum. Verkefni sem hafði verið byrjað á en aldrei klárað.

wpid-IMG_20130811_125339.jpg

Mamma skellti inn fríum prjónauppskriftum að kaðlahúfu, lambhúshettu og kraga fyrir börn í stað trefils.

045 (1)

September

Ég fékk Mikael til að lita garn með matarlitum.

092 copy

Ég heklaði svo jólasokka á litlu systur úr garninu.

001 copy

Október

Mamma setti inn nokkrar myndir af tvöfalda prjóninu sem hún hefur verið að hamast við að prjóna yfir árið.

peysan

Ég byrjaði í útsaumsáfanga í skólanum og saumaði út eins og vindurinn í október. Hef þó ekki enn náð að mynda það allt saman.

wpid-20130920_131021.jpg

Nóvember

Bloggaði um teppið sem ég heklaði á tveim vikum á meðan ég var rúmliggjandi vegna meðgöngunnar.

055

Maía mín fæddist. Hér er hún með teppinu sem ég heklaði handa henni.

031

Desember

Mamma bloggaði um jólagjafirnar sem hún prjónaði þetta árið.

Gissurs vettlingar Dale falk prjónar nr. 3,5

Og ég bloggaði um sokkana sem ég heklaði og gaf í jólagjöf.

145

Heklaðir sportsokkar

Fyrir jólin í ár gerðist ég svo fræg að hekla sokka. Ekki bara eitt par heldur þrjú! Mig hefur lengi langað til að hekla sokka og þegar ég sá þessa sokka í Maríu heklbók – og leist vel á – þá varð ég mjög kát.  Sokkapörin fengu systur mínar og systurdóttir.

038

Ég var þó í dálitla stund að komast af stað í sokkagerðinni.Samkvæmt uppskrift á að nota heklunálar nr. 2,5 og 3 en ég hekla fast (greinilega alveg svakalega fast) að ég varð að nota nál nr. 4. Samt voru sokkarnir ekki alveg nógu stórir hjá mér svo ég varð að gera stærri gerðina af sokkum sem eru samkvæmt bókinni fyrir breiða kálfa þó svo að systur mínar séu með netta kálfa. Ég vildi að sokkarnir næðu upp að hnjám og því lengdi ég þá um heilar 15 umferðir. Samt hefði ég verið til í að hafa þá enn hærri.

Í litlu sokkana notaði ég nál nr. 3,5 og heklaði smærri gerðina af sokkum. Ég fækkaði um nokkrar umferðir í þessum sokkum til að þeir myndu passa.

Garnið finnst mér einstaklega skemmtilegt og virka vel í þessa sokka. Garnið heitir Mayflower Divine og var keypt í Rósu ömmu. Það fóru 2 og 1/2 dokka í þessi þrjú sokkapör.

145

Systur, frænkur og mæðgur saman í sokkunum.

146

Mér finnst það voða krúttað að eiga svona litla sokka í stíl við þá stærri.

147

148

149

Ég er mjög sátt við sokkana og finnst þeir frekar flottir. Ég vona að systur mínar hafi góð not fyrir þá.

Hátíðar-hekl-kveðjur
Elín

Jólagjafaprjónið

Nú þegar allir hafa opnað jólagjafirnar er óhætt að setja inn á netið myndir af því sem prjónað var. Ég prjónaði nánast allar gjafirnar fyrir jólin í fyrra en í ár prjónaði ég bara 4 gjafir. Þær féllu vel í kramið og ég er alltaf glöð þegar ég sé að rétt var valið hjá mér fyrir viðkomandi einstakling og gjöfin verður notuð 🙂

Ég sá á einni norskri Facebook síðu um daginn spurningu sem ein kona setti inn. Hún spurði hópinn hvort þær héldu nú ekki að ættingjar þeirra væru orðnir þreyttir á að fá þessar handprjónuðu gjafir frá þeim? Ég vona að mínir ættingjar og vinir láti mig nú vita ef þeim þykir nóg um en það er bara að mínu mati alltaf gott að fá hlýja húfu eða vettlinga svo ég tali nú ekki um gjöf sem er handprjónuð og unnin með gleði og hlýju frá frænku, ömmu eða mömmu til viðkomandi aðila. Eða hvað finnst ykkur?

Tengdasonur minn er mikill unnandi þungarokks og hauskúpna. Þannig að þegar ég sá þetta munstur hjá Jordis mønsterbutikk kom ekki annað til greina en að prjóna vettlingana handa honum. Uppskriftin er sögð passa á lítinn karlmann þannig að ég prjónaði þá úr Dale Falk garni og á prjóna nr. 3,5 og pössuðu þeir þá fínt á Gissur minn sem er hávaxinn karlmaður,

Gissurs vettlingar Dale falk prjónar nr. 3.5 copy

Framhliðin er með gítar og fleira en bakhliðin hauskúpur. Gissur var alsæll með þá 🙂

Ingibjörg frænka fékk húfu. Ég var búin að sýna frænkum mínum mynd af húfu sem mér þótti svo falleg en hún var bara afleit þegar ég hafði prjónað hana. Þá sá ég þessa fallegu húfu á Facebook og fékk ég uppskriftina Kertalogi og garnið Semilla grosso í Litlu Prjónabúðinni. Ég prjónaði lengri útgáfuna og frænka alsæl með hlýja og flotta húfu )

Ingibjorg prjónar nr 5 copy

Húfan Kertalogi frá Litlu prjónabúðinni

Ég prjónaði sokka eftir uppskrift frá Bittamis Design handa Aþenu minni fyrir veturinn. Þeir eru virkilega fallegir og ég ánægð með þessa sokka. Svo ég ákvað að prjóna eina handa Maíu minni sem er 5 vikna og fékk hún þá í jólagjöf frá frænda sínum.

Hjertejente barnesokker fyrir Aþenu copy

Aþenu sokkar prjónaðir úr Dale Falk, flottir á 2ja ára skottuna mína.

Sokkar f Maíu 2013 copy

Maíu sokkar eru prjónaðir úr Dale Baby á prjóna nr. 2,5 og passa þeir þá fínt á ca. 2-5 mánaða.

Sofia frænka í Köben er mikill heklari en þykir líka afskaplega gaman að vera með fallega vettlinga á höndunum. Hún hefur fengið nokkur pör hjá mér en þegar hún sá þessi annars ágætu hreindýr á einhverri prjónasíðu hér á netinu vildi hún ólm eignast svona vettlinga. Ég er persónulega ekki til í að eiga flík með þessari tegund munsturs af hreindýrunum og bara gat ekki sent henni í jólagjöf vettlinga með þessu munstri. Átti í þó nokkurri innri baráttu við sjálfa mig vegna þessarar bónar hennar. Á endanum ákvað ég að prjóna vettlinga úr tvöföldu prjóni þannig að hún gæti snúið vettlingunum við og fengið aðra fallega í staðinn, Setti því saman þessa vettlinga prjónaða úr Yaku ull frá Litlu Prjónabúðinni (ég hljóma næstum eins og auglýsing en þessi búð er bara í miklu uppáhaldi hjá mér)

Sofiu vettlingar Yuku garn prjónar nr 2.5 copy

Eitt par af vettlingum: hlið A (hreindýrin góðu) og  hlið B er hægra megin

Svona í lokin þá prjónaði ég vettlinga á Maíu á meðan ég sat yfir jólasteikinni á aðfangadag. Einfaldir en skemmtilegir á litlar hendur og ég fékk tækifæri til að prjóna uglu sem ég hef svo oft séð á prjónasíðunum. Læt hér fylgja með uppskrift ef einhver vill prjóna svona vettlinga. Einfalt að prjóna úr grófara garni til að fá eitthvað stærri vettlinga en þessir eru sennilega uppí ca. 4ra mánaða.

maíu vettlingar copy

Ungbarnavettlingar

Garn: Dale Baby, Lanett eða annað garn með svipaðan grófleika
Prjónar: Sokkaprjónar nr, 2,5
Aðferð:
Fitjið upp 38 lykkjur og prjónið stroff  1 slétt, 1 brugðin alls 16 umferðir. Prjónið síðan samkvæmt teikningu en aukið út í fyrstu umferð um 6 lykkjur = 44 lykkjur á prjónunum. Skiptið lykkjum jafnt á prjónana þannig að það eru 11 lykkjur á hverjum prjóni. Munstur er bara prjónað á framhlið vettlings þ.e. 12 miðlykkjurnar þannig að allar lykkjur þar fyrir utan eru prjónaðar slétt.

Umferð 1-20 er prjónuð þannig: prjónið 5 lykkjur slétt, 12 lykkjur samkvæmt teikningu, 27 lykkjur slétt

Uglumunstur maíu vettlingar íslenskt_stækkaður

Þegar munstri lýkur er komið að úrtöku þannig:
Umferð 21: 1 lykkja slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman
Umferð 22: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman
Umferð 23: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman
Umferð 24: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman
Umferð 25:: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman
Umferð 26: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman

Setjið nú lykkjurnar sem eftir eru saman á 2 prjóna 10 lykkjur á hvorn prjón. Snúið vettlingnum við, rangan snýr út og fellið af með því að prjóna lykkjurnar 20 saman eða lykkið þær saman með nál.

Uppskriftin á PDF formi

Prjónakveðja,
Guðrún María

Jólagjöf til þín

**** Frábær þátttaka og allir sem kvittuðu fyrir kl. 16 í dag fá uppskrift senda í kvöld **** 

Tíminn flýgur og jólin eru að koma, þegar ég hef skemmtileg verkefni á prjónunum þá gleymi ég tímanum alveg og hann bara líður hratt áfram.

jolabjollur ekg2

Þessi 35 ljósa sería hangir hjá Elínu enda hún handóð og helkar út í eitt ❤

Um helgina fór ég í Húsasmiðjuna og fann loksins ljósaseríu sem er lengja ekki hringur svo loksins gat ég komið prjónuðu og hekluðu bjöllunum mínum fallega fyrir 🙂

jólabjollur GMG

Serían mín komin í gluggann

Eins og margir vita þá gefa þessar bjöllur fallega birtu frá sér og það er svo notalegt að hafa þær hangandi í glugganum. Svo af því að það eru að koma jól langar mig að leyfa sem flestum að njóta þess að hafa prjónaðar bjöllur á sinni ljósaseríu og ætla nú að gefa ykkur uppskrift af tveimur þeirra 🙂

jolabjollur GMG3

Heklaðar og prjónaðar bjöllur saman á seríu

jolabjollur ekg

Hekluðu bjöllurnar hennar Elínar

Ég er mjög litaglöð kona og þess vegna þykir mér marglit sería afskaplega falleg með bjöllum á en þar sem ég ætla að hafa mína uppi í allan vetur hafði ég glæra seríu

hekluð sería frá EKG

Langar þig í bjölluuppskrift af tveimur prjónuðum bjöllum?  Mér þykir afskaplega gaman að gleðja aðra svo það eina sem þú þarft að gera er að skrá þig á póstlistann okkar með því að skilja eftir netfang þitt hér fyrir neðan eða á Facebook síðunni okkar frá kl. 14-16 í dag 17. desember  (það kemur fram kl. hvað þú skilur eftir netfangið svo ég mun fara eftir því).  Ég mun senda ykkur uppskriftina í tölvupósti.

**** Athugið að þessi gjöf er eingöngu í gangi frá kl. 14-16 í dag ****

Jólakveðja
Guðrún María

Allt er þegar þrennt er

Mánudaginn 18. nóvember fæddist litla prinsessan mín.
Fæðingin gekk ótrúlega vel og heilsast okkur mæðgum vel.
Daman var í fínni stærð, 15 merkur og 54 cm.
Þessi vika hefur því farið í að slappa sem best af og læra.
Teppið sem ég heklaði handa henni hefur komið að góðum notum
og fer prinsessunni rosalega vel þótt ég segi sjálf frá.

Litla stúlkan okkar hefur verið nefnd og gáfum við henni nafnið
maia

031

Móri tekur systur sinni svo vel. Mun betur en við þorðum að vona.
Hann er alltaf að tékka á henni, knúsa hana og kyssa.

010

2ja vikna teppið

Ég heklaði teppi í október. Svona eiginlega bara alveg óvart. Og var frekar fljót að því.

Lífið atvikaðist þannig að ég fór af stað komin tæpar 34 vikur. Ég var því lögð inn á spítala og lá inni í 3 daga til þess að hægt væri að stoppa fæðinguna – og það tókst. Áður en ég skottaðist upp á spítala henti ég hekli í töskuna eins og ég geri svo oft. Heklið sem fór í töskuna voru dúllur sem ég var að hekla fyrir byrjendanámskeið sem var á dagskrá hjá Handverkskúnst.

 

teppt

Ég ætlaði bara að hekla nokkrar fyrir námskeiðið.
En eftir 3 daga rúmlegu og ekkert nema tíma til að hekla
þá hafði ég heklað 60 dúllur þegar kom að því að fara heim.
(Tek það fram að maðurinn minn og mamma komu með meira garn upp á spítala handa mér,
ég var ekki með svona svakalegt magn af garni í töskunni).

teppr

Eftir að ég kom heim átti ég að vera rúmliggjandi og hélt því áfram að hekla.
Á næstu dögum heklaði ég 60 dúlllur til viðbótar.

teppe

Á meðan ég var enn rúmliggjandi gekk ég frá öllum endum. Það tók ekki nema 1 dag.
Dúllurnar voru gerðar úr Kambgarni sem ég átti til heima og réð það litavali.

teppq

Búin að raða dúllunum upp í skipulagt óskipulag.

teppw

Móri (með risa glóðarauga) sat með mömmu
og passaði upp á að þetta færi ekki í klúður.
Aldrei þessu vant þá rústaði hann ekki öllu fyrir mér.

*****

Þegar kom að því að hekla dúllurnar saman mátti ég fara að hreyfa mig aðeins svo það tók mig örlítið lengri tíma en að hekla dúllurnar. Ekki mikið þó. Var í viku að hekla teppið saman og hekla kant á teppið.

052

Ég heklaði teppið saman með svokallaðri join-as-you-go aðferð.
Eða heklað-saman-jafn-óðum eins og það myndi beinþýðast.
Þá hekla ég það saman um leið og ég hekla síðustu umferðina.

056

 

Ég varð að kaupa mér 4 dokkur af hvítu Kambgarni til þess að tengja dúllurnar saman.
En annars átti ég allt annað garn til heima.

055

 

Er barasta nokkuð sátt með teppið mitt.
Sem ég er að hugsa um að kalla Gissunni
því maðurinn minn vill ekki nefna dóttur okkar því nafni.

tepp

 

Ég byrjaði að hekla þennan kant um teppið.
En viti menn. Garnið kláraðist svo ég gat ekki klárað.
Er það ekki alveg týpískt svona fyrir afgangateppi?

044

 

Ég var í vandræðum með að láta einn lit endast heila umferð.
Það gerist oft þegar verið er að nota afganga.
Mér datt í hug að hekla með einum lit hverja hlið á teppinu – og ég er að fíla það í botn.

047

 

Ég er hins vegar ekki að fíla bláa kantinn nógu vel
og planið er að skipta honum út fyrir hvítt bara.

045

 

Þess má til gamans geta að það tók mig um mánuð að mynda teppið sem ég var svona svakalega fljót að hekla.
Og Móri var ekki alveg jafn góður þegar ég var að reyna að mynda teppið heldur rústaði hann uppstillingunum mínum nokkrum sinnum. Enda átti ég að vera að horfa á hann hekla en ekki taka myndir af eitthverju hekli.