Klárað í janúar

Ég setti mér óformleg markmið varðandi handavinnu fyrir árið 2014. Eftir bestu getu ætla ég að klára þau verkefni sem ég byrja á. Ég er nefninlega alltof gjörn á að byrja á nýjum verkefnum áður en ég klára þau sem ég er byrjuð á. Þessi ókláruðu safnast svo saman og klárast aldrei. Einnig ætla ég að fara eftir fleiri uppskriftum. Lífið verður svo leiðinlegt ef maður er ekki að læra neitt nýtt. Og vel skrifaðar hekl uppskriftir að skemmtilegum verkefnum kenna manni nýjar aðferðir og tækni.

Þessi færsla er því um öll verkefnin sem ég heklaði eftir uppskriftum og kláraði í janúar. Alveg óvart eru allar flíkurnar bleikar. Kem upp um hversu hrifin ég er af bleiku.

***

Mustard Bow Dress handa Þulu Björg
Uppskrift: Mon Petit Violon
Garn: Drops Merino Extra Fine, Föndra
Magn: 4 dokkur
Nál: 5 mm

Æðislegur kjóll. Hef aldrei heklað kjól áður og er mjög ánægð með útkomuna. Var þó alveg heillengi að finna út heklfestu samkvæmt uppskriftinni og var orðin frekar pirruð. Uppskriftin sagði nál nr. 3,25 en ég endaði á að nota nál nr. 5 og hefði getað farið stærra. Langar samt að gera annan kjól handa Maíu minni.

image

image

***

Þumalínur handa Heiðu
Uppskrift: María heklbók
Garn: Dale Freestyle, A4
Magn: 3 dokkur í 2 pör af vettlingum
Nál: 5,5 mm & 6 mm

Skemmtilegir vettlingar og fljótheklaðir. Vanir heklarar gætu klárað eitt par á kvöldstund. Ég kláraði par á tveim kvöldstundum með ungabarn á arminum. Uppskriftin mælir með Léttlopa en ég er ekki nógu hrifin af lopanum svo ég keypti Freestyle garnið frá Dale og það kemur æðislega vel út í þessum vettlingum. Svo er það til í svo flottum litum. Heklaði seinni parið með aðeins stærri nál og því eru þeir stærri.

image

image

***

Dragonfly Slouch Hat handa Aþenu og Stínu
Uppskrift: Tara Murray Designs
Garn: Dale Baby Ull, A4
Magn: 1 dokka í hvora húfu
Nál: 3,75 mm

Tara bloggar undir nafninu Mamachee og hannar alveg virkilega skemmtilegar flíkur. Ég er alltaf að sjá nýjar myndir frá henni og langar að hekla en aldrei látið verða af því. Þegar ég sá þessa húfu sló ég loks til og keypti uppskriftina. Ég var mjög fljót að hekla húfurnar enda uppskriftin vel skrifuð. Aþena tekur sig vel út með sína húfu sem hún fékk í afmælisgjöf.

image

image

image

Bleikar-hekl-kveðjur
Elín c“,)

Heklaður dúkur

Ég heklaði þennan dúk í jólagjöf handa sænsku fósturforeldrum mannsins míns, en þau heimsóttu okkur yfir áramótin.

017

Uppskrift: Fann ég hér á Pinterest.
Garn: Heklgarn úr Litlu Prjónabúðinni
Nál: 1,75 mm

019

Þegar ég sá heklgarnið í Litlu Prjónabúðinni og litaúrvalið þá langaði mig til þess að kaupa dokku af hverjum lit.
Ég náði að hemja mig og varð þessi fallegi fjólublái litur fyrir valinu.

Mamma hló að mér og sagði að venjulega er verkefnið valið fyrst
en ég vel mér fyrst garn og finn svo út hvað ég get gert úr því.

185

Þegar ég var að hekla dúk í fyrsta sinn fór það alveg afskaplega í taugarnar
á mér að hann skildi vera svona krumpaður.
Ég hélt að jafnvel væri ég að gera eitthvað vitlaust.
En það er partur af programmet að strekkja og forma heklaða dúka.

186

Því langaði mig til að skella með myndum af því hvernig dúkurinn leit út fyrir…

187

…og á meðan hann var í mótun.
Til þess að móta hann notaði ég einfaldlega vatn og lét hann þorna.
Þannig heldur hann lögun sinni og er mjúkur.

022

Við hjónin saumuðum einnig út þessa mynd handa Svíunum.
Maðurinn minn komst að því fyrir jólin að hann hefði gaman af því að sauma út og er þetta þriðja myndin hans.
Hann saumaði út stafina en ég saumaði út borðana.

024

Þetta er sænska og myndi þýðast á íslensku: Þar sem rassinn hvílir þar er heimilið.
En sú setning er í uppáhaldi hjá mér.

Ef þig langar að sauma út þinn eigin texta þá mæli ég með þessari síðu Stitch Point.

Það verður svo að fylgja sögunni að Svíarnir voru hæstánægð með gjafirnar.

Elín c“,)

Silkitoppur – hekluð djöflahúfa

image

Uppskrift: María heklbók
Garn: Silkbloom úr Ömmu Mús
Nál: 3 mm

Mig hefur svo lengi langað að kaupa þetta garn en ekki tímt því nema að hafa ákveðið verkefni í huga. Þegar ég sá þessa húfu þá var ég ekki lengi að hlaupa út í búð og kaupa það.

Mér fannst örlítið flókið að þurfa að telja svona mikið í upphafi uppskriftar en ég var ekki lengi að finna taktinn í talningunni og þá var þetta ekkert mál.

Húfan er í stærð 6 – 12 mánaða og því er hún enn of stór. Maía verður fín með hana í sumar.

Hekl kveðja
Elín

Heklaðir sportsokkar

Fyrir jólin í ár gerðist ég svo fræg að hekla sokka. Ekki bara eitt par heldur þrjú! Mig hefur lengi langað til að hekla sokka og þegar ég sá þessa sokka í Maríu heklbók – og leist vel á – þá varð ég mjög kát.  Sokkapörin fengu systur mínar og systurdóttir.

038

Ég var þó í dálitla stund að komast af stað í sokkagerðinni.Samkvæmt uppskrift á að nota heklunálar nr. 2,5 og 3 en ég hekla fast (greinilega alveg svakalega fast) að ég varð að nota nál nr. 4. Samt voru sokkarnir ekki alveg nógu stórir hjá mér svo ég varð að gera stærri gerðina af sokkum sem eru samkvæmt bókinni fyrir breiða kálfa þó svo að systur mínar séu með netta kálfa. Ég vildi að sokkarnir næðu upp að hnjám og því lengdi ég þá um heilar 15 umferðir. Samt hefði ég verið til í að hafa þá enn hærri.

Í litlu sokkana notaði ég nál nr. 3,5 og heklaði smærri gerðina af sokkum. Ég fækkaði um nokkrar umferðir í þessum sokkum til að þeir myndu passa.

Garnið finnst mér einstaklega skemmtilegt og virka vel í þessa sokka. Garnið heitir Mayflower Divine og var keypt í Rósu ömmu. Það fóru 2 og 1/2 dokka í þessi þrjú sokkapör.

145

Systur, frænkur og mæðgur saman í sokkunum.

146

Mér finnst það voða krúttað að eiga svona litla sokka í stíl við þá stærri.

147

148

149

Ég er mjög sátt við sokkana og finnst þeir frekar flottir. Ég vona að systur mínar hafi góð not fyrir þá.

Hátíðar-hekl-kveðjur
Elín

2ja vikna teppið

Ég heklaði teppi í október. Svona eiginlega bara alveg óvart. Og var frekar fljót að því.

Lífið atvikaðist þannig að ég fór af stað komin tæpar 34 vikur. Ég var því lögð inn á spítala og lá inni í 3 daga til þess að hægt væri að stoppa fæðinguna – og það tókst. Áður en ég skottaðist upp á spítala henti ég hekli í töskuna eins og ég geri svo oft. Heklið sem fór í töskuna voru dúllur sem ég var að hekla fyrir byrjendanámskeið sem var á dagskrá hjá Handverkskúnst.

 

teppt

Ég ætlaði bara að hekla nokkrar fyrir námskeiðið.
En eftir 3 daga rúmlegu og ekkert nema tíma til að hekla
þá hafði ég heklað 60 dúllur þegar kom að því að fara heim.
(Tek það fram að maðurinn minn og mamma komu með meira garn upp á spítala handa mér,
ég var ekki með svona svakalegt magn af garni í töskunni).

teppr

Eftir að ég kom heim átti ég að vera rúmliggjandi og hélt því áfram að hekla.
Á næstu dögum heklaði ég 60 dúlllur til viðbótar.

teppe

Á meðan ég var enn rúmliggjandi gekk ég frá öllum endum. Það tók ekki nema 1 dag.
Dúllurnar voru gerðar úr Kambgarni sem ég átti til heima og réð það litavali.

teppq

Búin að raða dúllunum upp í skipulagt óskipulag.

teppw

Móri (með risa glóðarauga) sat með mömmu
og passaði upp á að þetta færi ekki í klúður.
Aldrei þessu vant þá rústaði hann ekki öllu fyrir mér.

*****

Þegar kom að því að hekla dúllurnar saman mátti ég fara að hreyfa mig aðeins svo það tók mig örlítið lengri tíma en að hekla dúllurnar. Ekki mikið þó. Var í viku að hekla teppið saman og hekla kant á teppið.

052

Ég heklaði teppið saman með svokallaðri join-as-you-go aðferð.
Eða heklað-saman-jafn-óðum eins og það myndi beinþýðast.
Þá hekla ég það saman um leið og ég hekla síðustu umferðina.

056

 

Ég varð að kaupa mér 4 dokkur af hvítu Kambgarni til þess að tengja dúllurnar saman.
En annars átti ég allt annað garn til heima.

055

 

Er barasta nokkuð sátt með teppið mitt.
Sem ég er að hugsa um að kalla Gissunni
því maðurinn minn vill ekki nefna dóttur okkar því nafni.

tepp

 

Ég byrjaði að hekla þennan kant um teppið.
En viti menn. Garnið kláraðist svo ég gat ekki klárað.
Er það ekki alveg týpískt svona fyrir afgangateppi?

044

 

Ég var í vandræðum með að láta einn lit endast heila umferð.
Það gerist oft þegar verið er að nota afganga.
Mér datt í hug að hekla með einum lit hverja hlið á teppinu – og ég er að fíla það í botn.

047

 

Ég er hins vegar ekki að fíla bláa kantinn nógu vel
og planið er að skipta honum út fyrir hvítt bara.

045

 

Þess má til gamans geta að það tók mig um mánuð að mynda teppið sem ég var svona svakalega fljót að hekla.
Og Móri var ekki alveg jafn góður þegar ég var að reyna að mynda teppið heldur rústaði hann uppstillingunum mínum nokkrum sinnum. Enda átti ég að vera að horfa á hann hekla en ekki taka myndir af eitthverju hekli.

 

Of mikið af hinu góða?

Ég fæ mjög margar hugmyndir að verkefnum sem mig langar til að hekla. Það verður hins vegar ekki mikið úr þeim hugmyndum oft á tíðum. Ég er soddan sveimhugi og er fljót að finna annað sem mér langar meira að gera. Eða ég get hreinlega ekki ákveðið hvernig ég vill útfæra hugmyndina.

Image

Pretty Prudent

Ég skoða mikið hekl á netinu og þar er hægt að finna endalaust mikið af innblástri í verkum annarra. Mig hefur lengi langað til þess að hekla svokallaða fánalegju (e. garland) en ekki vitað hvar ég ætti að setja hana. En nú er von á lítilli dömu og tilvalið að hekla fánalengju til að setja í hornið hennar. En þá kemur spurningin hvernig fánalengju á ég að gera?

Hér eru nokkrar hugmyndir sem ég hef séð á netinu og finnst vera fallegar.
(Ef þú smellir á myndina þá ferðu á síðuna þar sem ég fann myndina)

Image

Óþekktur heklari

Image

MariMartin

Image

alxmackenzie

Image

Attic24

Image

Carolina Guzman

Image

Dottie Angel

Image

Sol

Image

Carolina Guzman

Hvort ég muni svo hekla fánalengju eða ekki. Það verður að koma í ljós með tímanum c“,)

Hekl-kveðjur Elín

Nýr erfingi – nýtt teppi

Nú er það orðið opinbert að ég á von á enn einum erfingjanum. Í þetta sinn er lítil dama á leiðinni. Sem er voða spennandi þar sem ég á tvo yndislega stráka fyrir. Svo fæ ég alltof sjaldan tækifæri til að hekla bleik teppi.

533566_484502701641266_667069689_n20 vikna sónarmynd og byrjunin á nýja teppinu.

1017428_481472078610995_105546615_nMín með 20 vikna bumbu.

Ég beið og beið eftir 20 vikna sónarnum til að geta farið að versla garn í „réttu“ litunum. Ég var svo viss um að ég væri að fá þriðja strákinn að ég var alveg með það á hreinu hvaða stráka liti ég ætlaði að nota. En svo kom í ljós að lítil stelpa var á leiðinni og þá var ég engan vegin með litavalið á hreinu. Við mamma skelltum okkur í A4 og röðuðum saman litum þar til ég var sátt með mitt.

025

029Ég endaði á að kaupa mér Dale Baby Ull því það er í uppáhaldi hjá mér. 
Valdi mér þessa fimm liti.

Ferningarnir sem ég er að hekla kallast Granny Arrow Square. Á rúmri viku er ég búin að hekla næstum alla 70 ferningana sem þarf í teppið. En ég sé það að ég á eftir að vera heillengi að ganga frá öllum endunum. Ég ákvað raða litunum ekki eins í öllum ferningunum og tók myndir af ferningunum eftir því að þeir stækkuðu, finnst gaman að sjá mismunandi litasamsetningarnar þróast. Og ég verð að segja að mér finnst þessir litir sem ég valdi mér passa alveg svakalega vel saman.

4umf4 umferðir komnar.

5umf5 umferðir komnar.

6umf6. umferðir komnar.

Að lokum læt ég fylgja með eina mynd af stóra litla barninu mínu honum Móra
sem er dyggur aðstoðarmaður mömmu sinnar þegar kemur að öllu garntengdu.

003

 

Teppakveðjur
Elín c“,)

Handavinna í sjónvarpinu

Þegar ég er að horfa á sjónvarp eða lesa blöð þá er ég sko ekki lengi að reka augun í hekl. Flestir taka ekki einu sinni eftir heklinu…en það gerir mig svaka glaða.

Annað sem ég hef gaman af eru þættirnir Call the Midwife sem RÚV hefur verið að sýna. Í kvöld voru nunnurnar að gera þetta ótrúlega fallega teppi.

blog_call_midwife_blanket2

Það var hins vegar eitt sem var svo svo rangt við þetta teppi. Í þættinum var það nefninlega ekki heklað heldur prjónað.

sieppaa3

Ég held að flest allar handavinnu konur – og menn – viti vel að þessir ferningar eru sko ekki prjónaðir. Þetta eru heklaðir ömmu ferningar og eru að ég tel ein þekktasta týpa af hekli í heimi.

2

Mér finnst svo skrítið þegar þættir gera svona villur. Líklegast því mér finnst þetta svo gefið. Eins og þetta eru góðir og vel gerðir þættir þá er það spes að gera svona kjánalega villu.

En þrátt fyrir að þeir aðilar sem komu að þessum þáttum þekki ekki mun á hekli eða prjóni þá er þetta alveg afskaplega fallegt teppi.

blog_call_midwife_blanket4

Sunnudagskveðjur
– Elín

Stör teppi – uppskrift

Það er svo einfalt að hekla þetta teppi.

Þrátt fyrir einfaldleika sinn er hægt að gera teppið mjög svo flott með því að velja skemmtilega liti. Og áferðin er svo skemmtileg.

Uppskrifin:
Ath: Notið stærri heklunál en þið mynduð vanalega nota með því garni sem þið veljið. Mynstrið í þessu teppi er frekar þétt og ef teppið er heklað of fast þá verður það of þykkt í sér og ekkert sérstaklega þægilegt.
Fitjið upp margfeldið af 3, bætið svo við 2 ll.
1. umferð: 1 hst í 3. ll frá nálinni, 1 st í sömu lykkju, *hoppið yfir 2 ll, 1 fp, 1 hst, 1 st allt í 3. ll frá nálinni*, endurtakið frá * til * þar til 3 ll eru eftir af upphafslykkjum, hoppið yfir 2 ll, 1 fp í seinustu ll.
2. umferð: Snúið við. 1 ll, 1 hst, 1 st í fyrstu lykkju (eða seinasta fp fyrri umf), *hoppið yfir 2 lykkjur, 1 fp, 1 hst, 1 st í 3. lykkju frá nálinni (fp fyrri umf)*, endurtakið frá * til * þar til 3 lykkjur eru eftir af umf, hoppið yfir 2 lykkjur, fp í 1. ll fyrri umferðar. (Það er stundum smá vesen að ná í þessa ll en það kemst fljótt upp í vana).
Endurtakið 2. umferð þar til teppið er orðið eins langt og þið viljið hafa það.

 


Kannturinn:
Áður en ég hekla kannt á Stör teppið geri ég eina til tvær um ferðir af fp. Svo geri ég þann kannt sem heillar mig þann daginn.
Blúndukanntur
Hnútakanntur

Gangi ykkur vel og góða skemmtun c“,)

Litasprengja

Ég er þannig gerð…held ég hafi pottþétt minnst á það áður…að ég fæ flugur í hausinn og verð að hlaupa til og framkvæma þær jafnóðum.
Ég fékk svoleiðis flugu í hausinn núna um daginn. Yngri systir mín er ólétt og er sannfærð um að hún gangi með strák (verður staðfest eða ekki 31. ágúst). Mig langaði að gera handa henni teppi…eins og ég geri alltaf…en mig langaði að gera e-ð öðrvísi.
Ég á alveg endalaust mikið af garni og mikið af því eru afgangar eða ein dokka svo það dugar ekki í heilt verkefni eeen það gæti nýst í samsuðu sem yrði alger litasprengja.

Svooo ég safnaði saman öllu garninu sem ég átti og var af svipuðum grófleika.

Í bláum lit.

Í hvítum lit.

Í grænum lit.
*****

Niðurstaðan varð þessi:


Marglitt teppi handa Jóhönnu.


Og það er svo sannarlega litasprengja.

Teppið er einstaklega einfalt í framkvæmd, heklað fram og til baka.

Ég notaði eins og fyrr segir alls konar garn og heklunál nr. 5,5.
Það kemur mjööög skemmtilega út að eigin mati.

Það er heklað úr spori sem myndi þýðast á íslensku sem Stör(sedge stitch).

Ég heklaði svo utan um það með gráu Lanett og nál nr. 3
Og notaðist ég við þessa aðferð.


Planið er svo að setja inn uppskrift fljótlega.

Sem er eins og alltaf þegar ég nenni c“,)