Janúarprjónið

Þá er fyrsti mánuður ársins liðinn og ég búin með nokkur verkefni. Ég setti mér það markmið að prjóna 1 vettlingapar í hverjum mánuði þetta árið. Það er svo mikið til af fallegum vettlingamunstrum að maður fær nánast valkvíða 🙂

Í janúar ætla ég bara að prjóna úr garni sem ég á nú þegar og þar kem ég sko alls ekki að tómum kofanum 🙂

Byrjaði á þessari húfu strax á nýársdag þar sem hún þurfti að vera tilbúin 3. janúar. Fótboltahúfan prjónuð með tvöföldu prjóni og er gífurlega vinsæl hjá strákum og stelpum. Það er líka svo gaman að prjóna hana í litum hvers fótboltafélags fyrir sig. Þessi rauð og svört eins og t.d. Knattspyrnufélagið Víkingur er með í sínum búningi.

Garn: Dale Baby
Prjónar nr. 3,5

fótboltahúfa Dale Baby_saman_merkt

Síðan urðu þessir vettlingar fyrir valinu, sá þá á prjónasíðu á Facebook og uppskriftin er frí á Ravelry og langaði mig að hafa þá hvíta og sjálfmunstrandi garn með. Ég átti garn sem ég hafði keypt í Hagkaupm Baby ull frá Gjestal og notaði prjónar nr. 2,5.  Aftur á móti varð ég ekkert sérstaklega ánægð með fyrsta vettlinginn og hef ekki enn prjónað hinn.

Gjestal Baby ull saman

Svo sá ég þessa skemmtilegu uppskrift á síðu á Facebook sem Bitta Mikkelborg heldur úti. Hún gaf þessa uppskrift, sem heitir Myria í tilefni að því að 10.000 like voru komin á síðuna hennar. Það er leikur í gangi þegar þú prjónar þetta munstur þar sem þú kastar teningi og prjónar það munstur sem hefur sama númer og kemur upp á teningnum hverju sinni. Svo ef þú prjónar fleiri en 1 par af þessum vettlingum verða þau sennilega ekki í sömu röð munstrin, mér þykir þetta skemmtileg hugmynd hjá henni.

Garn: Arwetta Classic
Prjónar nr. 2,5

Myria_Arwetta Classic_merkt

Hún Bitta er í miklu uppáhaldi hjá mér og þessa vettlinga gefur hún fría á Ravelry. Ég ákvað að prófa í fyrsta skipti að prjóna kaðla án hjálparprjóns/kaðlaprjóns og það var bara mjög þægilegt, var búin að mikla það svo fyrir mér.  Uppskriftin gerir ráð fyrir Nepal eða Lima garni frá Drops og þar sem ég á nokkrar Nepal dokkur þá skellti ég í eitt par 🙂

Garn: Drops Nepal
Prjónar nr. 4

Bittas mittens_Drops Nepal_merkt

Þar sem ég hef verið í öðru verkefni á daginn og nánast bara prjónað á kvöldin í janúar valdi ég þessa peysu sem er fljótleg og þægilegt að prjóna yfir sjónvarpinu. Þetta munstur hefur verið gífurlega vinsælt í Færeyjum undanfarin ár. Þegar ég fór þangað sumarið 2012 voru í Þórshöfn sennilega um 70% kvennþjóðarinnar í svona peysum með alls konar útfærslum. Stjarnan er gamalt færeyskt munstur. Ég hef prjónað tvær heilar úr léttlopa fyrir frænkur mínar en prjónaði þessa á Maíu Sigrúnu í stærð 1 árs, engin uppskrift bara sniðið utan um stjörnumunstrið.

Garn: Navia Duo
Prjónar nr. 4

Stjörnupeysa á Maíu_Navia Duo (1)merkt

Maía mín er alltaf svo köld á höndunum og vantaði vettlinga til að sofa með sem hún gæti ekki rifið af sér. Svo amma prjónaði þessa eitt kvöldið úr afgangsgarni sem ég átti.

Vettlingar á Maíu1_merkt

Þessi ágæta silkihúfa er búin að vera prjónuð og rakin upp aftur og aftur, ég bara náði ekki réttri stærð fyrir Maíu. Ýmist var hún alltof stór eða alltof lítil. Ótrúlegt þegar svona smáverkefni vefjast fyrir manni. Ég prjónaði hana í hring úr silkigarni sem Elín mín átti afgangs en hana langaði að eiga hjálmhúfu sem passaði strax á litlu prinsessuna sína.

Garn: Jaipur fino
Prjónar nr. 2,5

Silkihúfa saman

Ég er bara nokkuð sátt við útkomu janúarmánaðar og það sér ekki á garnbirgðum mínum að ég hafi tekið af þeim til að prjóna þessi verkefni. Ég er með langtímaverkefni á prjónunum líka, sófateppi fyrir Aþenu og Móra úr tvöföldu prjóni. Gott að hafa svona að grípa í þegar maður vill taka því rólega.

Prjónakveðja
– Guðrún

Veturinn nálgast – frí uppskrift

Þegar verslunarmannahelgin er liðin hringir alltaf bjalla hjá mér, nú fer haustið að nálgast og ekki seinna að vænna en að fara að huga að hlýrri fatnaði á börnin. Hér áður fyrr prjónaði ég alltaf nýja peysur, húfur, sokka og vettlinga á börnin mín fyrir leikskólann eða skólann en nú eru þau vaxin upp og þá taka barnabörnin við mér til mikillar gleði.

Aþena og Móri eru svo heppin að amma þeirra prjónar og prjónar á þau. Reyndar prjóna ég ekki allt sem mig langar til þar sem þau komast ekki yfir að nota allt saman en lítil prinsessa á leiðinni svo hún fær eitthvað af því sem ég hef ekki prjónað enn á hin, mikil gleði hjá ömmu.

Elín dóttir mín var búin að panta handa Móra (áður en hann fæddist) lambhúshettu og vettlinga í stíl sem hún sá í Navia blaði. Ég keypti því uppskriftina og garn í ferð minni til Færeyja í fyrra og nú er settið tilbúið fyrir litla manninn.

024 (1)

Auðvitað fékk Aþena líka

018

Þessi sett eru prjónuð úr Navia Duo, sem er ágætis garn frá Færeyjum og ullin stingur ekki.

Svo var ég um daginn á Selfossi og koma við í Hannyrðabúðinni og keypti mér sokkagarn sem heitir Hot Socks.

Hot Socks garn

Var búin að sjá sokka prjónaða úr þessu garni og langaði svo að prjóna sokka úr því. Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að prjóna sokkana með köðlum, gatamunstri eða alveg slétta en þetta varð niðurstaðan. Aþena bleika með gatamunstri en Móri bláa með stroffi og gatamuntri á rist. Bara sátt við þessa sokka, en þau þurfa nú sennilega þykkari sokka svona yfir háveturinn ef þau verða mikið úti að leika…samt sem áður alltaf gaman að eiga fallega sokka.

Sokkar á AR og MM 2013

20130826_125205

Nú þar sem ég var komin í prjónahlé frá öðru verkefni og farin að prjóna á krílin, þá prjónaði ég þessa húfu á Aþenu einnig en ég sá þessa á Ravelry (heitir Polku-myssy) fyrir nokkru síðan og hún var alltaf á dagskrá. Ég notaði Navia Duo og prjóna nr. 4 og fékk þá passlega húfu á ca 2ja ára. Einföld húfa að prjóna og skemmtilegt kaðlamunstur á henni.

045 (1)

Svona í lokin eitthvað sem nauðsynlegt er að eiga á börnin, laus kragi í stað trefils.

ekki kalt í vetur

Ef þig langar til að prjóna eitthvað af þessu sem ég er búin að sýna ykkur þá eru uppskriftir hér á íslensku í PDF skjali:

Lambhúshetta og vettlingar í boði Navia

Kaðlahúfan Polku-myssy e. Pia Tuononen

Laus kragi í stað trefils

– Móra sokkar, notaði þetta munstur á ristina, er með 48 l í stroffi og endaði með 41 lykkju á fæti.

– Aþenu sokkar, þar studdist ég við þessa uppskrift  en hún er á ensku. Fitjaði upp 56 lykkjur á prjóna nr. 3, leggurinn er 14 cm

Að prjóna sjal

Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að prjóna sjal. Ég aftur á móti hætti mér ekki í að prjóna sjal fyrr en á síðasta ári! Taldi þetta alltof mikla vinnu og ekkert gagn í að eiga eitt slíkt. En ég lét vaða og byrjaði síðast liðið sumar á einu og það varð ekki aftur snúið þetta er alveg svakalega skemmtilegt prjónaverkefni. Fyrsta skjalið sem ég prjónaði var „Lazy Katy“ uppskrift frá Birgit Freyer en uppskriftina fann ég á Ravelry. Hún hannar einstaklega skemmtileg sjöl og peysur.

Lazy Katy1

Þetta er Lazy Katy prjónað úr Cascade Yarn Heritage Paints sem ég keypti í handprjón.is

Ég var mjög ánægð með þetta verk og prjónaði tvö í viðbót sem fóru í jólapakka til frænkna minna. Í þau notaði ég Heritage silki frá handprjón.is

???????????????????????????????

Þar sem ég ákvað að prjóna allar jólagjafir fyrir jólin 2012 voru auðvitað sjöl í pakkanum til mömmu og tengdamæðra minna. Mamma elskar glimmer og allt sem glitrar svo hún fékk einfalt Revontuli sjal (Revontuli þýðir Norðurljós á finnsku) prjónað úr Marks & Kattens Fame Trend Paljett.

???????????????????????????????

Tengdamamma fékk einnig Revontuli sjal en ég bætti við skrautkanti neðst á hennar og notaði garn sem heitir Fametrend

???????????????????????????????

Tengdamamma nr. 2 fékk sjal prjónað úr Navia Uno sem heitir Firebird frá Birgit Freyer , svakalega fallegt og stórt sjal, eiginlega bara listaverk.

???????????????????????????????

Nærmynd:

???????????????????????????????

Wingspan varð líka vinsælt síðast liðið haust og fékk frænka mín eitt svo leiðis í jólapakkann. Einfalt verk að prjóna en ekki eins skemmtilegt og hin sjölin að mínu mati. Þetta prjónaði ég úr Drops delight

wingspan

Svo var ég búin að sjá lengi á Facebook prjónasíðum að margir voru að prjóna Haruni sjalið.  Langaði alltaf að prjóna það en byrjunin á því stóð í mér. Svo var farið af stað með samprjón og ég skellti mér með og sé alls ekki eftir því. Prjónaði tvö slík og eru bæði falleg.

???????????????????????????????

Fyrra sjalið prjónaði ég úr Randalín II frá Handprjon.is. Stækkaði þetta um 2 munstur

Haruni Zitron garn

En það seinna úr garni frá Filigarn v. Atelier Zitron sem ég keypti í Danmörku. Svakalega litríkt og alveg í mínum anda þar sem ég elska liti. Stækkaði þetta um 1 munstur og notaði fínni prjóna.

En það er ekki bara gleði við að prjóna sjöl, það þarf að stekkja þau líka svo þau njóti sín nú í allri sinni dýrð. Það er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en ég nota púslmottu til að næla þau í.

??????????????????????

Öll vinnan við sjölin er vel þess virði þau eru svo falleg og gleðja augu allra sem þau sjá. Svo er alltaf gaman að gefa svona fallega handprjónaða gjöf.

Kveðja

– guðrún

Að prjóna…

…er meir en að segja það. Ekki afþví að það er erfitt heldur því það er svo margt í boði.

Ég þjáist af því sem ég kalla mótþróa. Stundum er það kostur en stundum galli. Eins og margir sem lesa bloggið vita þá er ég að læra að verða textílkennari upp í HÍ. Í fyrra var ég í áfanga þar sem við vorum að prjóna og þar sagði kennarinn að ég yrði að læra að prjóna upp á íslenska mátann. Síðan þá hef ég verið að æfa mig og það gengur bara sæmilega.

Ég lærði að prjóna 9 ára hjá færeyskri ömmusystur minni og held því á garninu í hægri hendi eins og Bretar og Ameríkanar. Alltaf hefur verið hlegið að því hvernig ég prjóna og mér sagt að ég prjóni vitlaust. Mér fannst það voða leiðinlegt að heyra en hugsaði hey þetta virkar svo mér er sama.

Eftir að ég fór að æfa mig í að prjóna á íslenska mátann hef ég komist að því að mér finnst vissulega auðveldara að halda á garninu í vinstri hendi því mar hreyfir hendina minna. Ég er orðin nokkuð lunkin í því að prjóna slétt en það er alveg hreint glatað að prjóna brugðið. Þetta er svo svakalega flókið miðað við það sem ég er vön.

Og þar kemur mótþróinn minn inn.

Þegar eitthver segir við mig „Svona er þetta bara“ þá verð ég bara að afsanna það. Því hef ég verið að skoða á netinu mismunandi prjóna aðferðir og fundið margar skemmtilegar. Sem mig langar að deila með ykkur.

Tvær algengustu prjónaaðferðirnar eru:

  • Ensk eða Amerísk (English, American) – bandið er í hægri hendi.
  • Evrópsk eða Meginlands (European, Continental) – bandið er í vinstri hendi.

Ég las á Wikipedia að vinsældir Ensku aðferðarinnar hafi aukist í kringum og eftir seinni heimsstyrjöldina því Evrópska aðferðin átti rætur sínar að rekja til Þýskalands. Það var ekki fyrr en upp úr 1980 sem Evrópska aðferðin fór að ná vinsældum aftur.

Það er sagt að mar sé fljótari að prjóna með Evrópsku aðferðinni og ég hugsa að það geti verið rétt fyrir langflesta. En hún Hazel Tindall prjónar með Ensku aðferðinni og er andskoti fljót. Ég hugsa að æfingin skipti mestu máli.

Á YouTube flakkinu mínu fann ég nokkrar mismunandi aðferðir við að gera brugðið. Sumar virtust jafnvel flóknari en þessi sem ég er að reyna að læra. En ég ætla að prufa nokkrar og sjá hvað mér finnst. Eitt myndband sem ég fann kallast „Brugðið á Norskan máta“ og sýnir hvernig hægt er að prjóna brugðið án þess að þurfa að færa bandið fram fyrir prjónana. Gæti verið mjög gagnlegt þegar verið er að prjóna stroff.

Ég fann líka aðra aðferð sem mér finnst nokkuð merkileg. Á YouTube er þetta kallað Portúgalska aðferðin. Þarna eru þær með bandið aftur fyrir hálsinn eða í nælu með krók sem þær festa í barminn á sér. Mjög skemmtilegt.

Það skemmtilegasta sem ég fann var án efa ein aðferð sem ég fann en veit ekki hvað kallast, myndböndin hétu Ástralskt prjón, Skoskt prjón, prjón frá Perú og Írskt sveita prjón. Þetta er að ég tel eitthvað afbrigði ensku aðferðarinnar. Ég reyndi að leika þetta eftir en tókst það ekki vel. Finnst þetta alveg hreint magnað.

Ég get sagt ykkur það að ég er allavegana að skemmta mér konunglega við að læra meira um prjón. Þegar ég er búin að mastera slétt og brugðið þá fer ég að æfa mig í að prjóna með tveimur eða fleiri litum. Mig skortir soldið æfingu á þeim bænum. Ég er líka búin að ákveða að ég ætla sko ekki að vera sá kennari sem segir „Svona er þetta bara“ heldur ætla ég að kunni fleiri en eina aðferð svo ég geti hjálpað sem flestum að læra að prjóna. Og hana nú.

Þið sem nenntuð að lesa þessa löngu færslu: Ég vona að þið hafið séð eitthvað sem ykkur fannst áhugavert líka.

 

Prjónakveðjur
Elín c“,)

 

Lambhúshetta – frí uppskrift

Þessa lambhúshettu prjónaði ég fyrst í kringum 1995 á dætur mínar.
Flott húfa til að nota garnafganga í og fer einstaklega vel innan undir hettur t.d. á snjógöllum.
Ég veit ekki hvaðan uppskriftin er upphaflega en hún var mikið prjónuð
á þeim vinnustað sem ég vann á, á þessum tíma.

lambúshetta

Garn: Lanett 100% ull, Dale garn 100% ull
Prjónar: nr. 2,5
Ummál húfu: 46 cm

Fitja upp 60 lykkjur og prjóna 2 slétt og 1 brugðin á réttunni en 2 brugnar og 1 slétt á röngunni. Prjónið 40 umferðir. Geymið stykkið og prjónið annað eins. Sameinið stykkin á hringprjón og prjónið áfram 2 slétt og 1 brugðin í hring 25 umferðir.

Prjónið þá slétt og byrjið á mynstri 1, síðan mynstur 2 og 3. Því næst eru prjónaðir garðar svona: Ein umferð slétt í lit nr. 1 og önnur umferð brugðin. Síðan ein umferð slétt í lit nr. 2 og önnur umferð brugðin. Svo ein umferð slétt með lit nr. 1 og þegar farið er að prjóna seinni umf þá fella af 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur brugðið, felllið 38 lykkjur af mjög laust og prjónið rest brugðið. Nú eru komnir 3 garðar. Í næstu umferð er fitjað upp aftur þessar 38 lykkjur þannig: Prjónið 11 lykkjur slétt með lit nr. 1, fitjið upp 38 lykkjur mjög laust með öðru bandi og prjónið þær slétt með í hringinn og svo áfram út prjóninn, síðan einn hring brugðið. Síðan einn hring slétt í lit nr. 2 og önnur brugðin. Prjónið svo áfram mynstur og byrjið á mynstri nr. 4, svo nr. 2 og loks nr. 1. Prjónið þá einn garð í lit nr. 1 og annan garð í lit nr. 3 á sama hátt og fyrr í húfunni. Síðan mynstur nr. 1 en víxla litum, svo mynstur nr. 2 og enda á mynstri nr. 3.

Úrtaka: Prjónið með aðallit *2 lykkjur saman og 10 lykkjur slétt* prjónið frá * að * allann hringinn. Fellið svona af í annarri hverri umferð með 1 lykkju færri á milli þar til 6-8 lykkjur eru eftir prjóna þá nokkrar umferðir. Slétt slítið frá og dragið bandið í gegn.

Lambhúshetta_mynstur

Þið getið einnig sótt ykkur uppskriftina í pdf skjali með því að smella hér.

Mbk
Guðrún María

Nýjasta æðið mitt

Það er frekar algengt að ég bloggi um krukkur og bjöllur. En það hefur aldrei skeð að ég blogga um prjónaðar krukkur og bjöllur. En það er einmitt að fara að gerast núna!

Nýjasta æðið mitt er nefninlega að prjóna gatamynstur. Ég er alveg dáleidd yfir þessari nýju tækni. Skil ekki afhverju ég hef ekki fattað þetta fyrr. En er mjög glöð að ég sé að uppgötva þetta núna. 
Það er svo yndislega gaman 

að læra e-ð nýtt!

Ég er búin að vera að sitja prjónanámskeiðin hennar mömmu og prjóna bjöllur. Ég var ekkert sérstaklega fljót að prjóna og var eini nemandinn sem náði ekki að klára bjölluna sína. Bjöllurnar mínar urðu líka of stórar því ég prjóna greinilega laust. Sem mér finnst soldið fyndið því ég hekla mjög fast. 
En þriðja bjallan mín er uppáhalds og ég get ekki hætt að dást að henni. Finnst það frekar magnað að ég af öllu fólki hafi prjónað hana – og á prjóna nr 2 í þokkabót.

Ég fékk lánað eitt af bjöllu mynstrunum hennar mömmu og prjónaði utan um krukku. Svo prjónaði ég aðra eins krukku bara á stærri prjóna. Finnst þær báðar alveg ótrúlega fallegar.

Ég fann svo annað mynstur í gegnum Pinterest og gerði aðra týpu af krukku. Jólakrukku! Gatamynstrið myndar jólatré. Það er ekkert alltof greinilegt. En ef kærastinn minn sá jólatré út úr þessu þá held ég að aðrir ættu að sjá það líka.

Það hefur kertaljós logað í fallegu krukkunum mínum í allt kvöld.

Ég er svo hamingjusöm yfir þessari nýfundnu gleði minni í prjóni. Finnst þetta svo spennandi og finnst allt sem ég geri svo geggjað flott. Sælir séu einfaldir. Markmiðið er sett á að prjóna dúk eða/og jafnvel sjal. Ef ég missi ekki áhugann áður en það gerist.

Prjónaklúður

Verð ég ekki að deila sorgum mínum jafnt og sigrum á þessi bloggi mínu.

Ég hef ekkert sérstaklega mikla þolinmæði þegar kemur að því að prjóna kannski vegna þess að ég er alger fullkomnunarsinni. En samt sem áður ákvað ég að skella í eitt stykki prjónavettlinga handa kærastanum. Fann þessa hreindýravettlinga á Ravelry (hef séð svona húfur á bland áður) og honum fannst þeir æðislegir. 

Þetta gekk sæmilega hjá mér fram að mynstrinu þá fóru hlutirnir svo sannarlega í klúður. Mynstrið varð alls ekki fallegt, sumar lykkjur voru hólkvíðar á meðan aðrar voru svo strekktar að þær næstum hurfu. Vettlingurinn varð mun þrengri þar sem mynstrið var og mér fannst þetta hreinn og beinn hroðbjóður. Eftir tvær tilraunir þá gafst ég upp og ákvað að þetta verk mitt yrði ekki klárað.Það er alls ekkert nýtt að ég gefist upp á prjónaverkefnum. Eins og ég segi þá er ég með stuttan þolinmæðisþráð og fullkomnunaráráttu.

Þegar ég var ólétt af Mikael (fyrir rúmum 11 árum síðan) prjónaði ég handa honum peysu. Ég setti þó aldrei tölur í peysuna né notaði hana því þegar peysan var fullgerð tók ég eftir því að ég hafði ekki gert mynstrið alveg rétt. Veit ekki hvernig þetta fór framhjá mér á meðan ég prjónaði gripinn en eftir á þá sá ég ekkert annað en þetta. Ég hef þó aldrei tímt að henda peysunni. Enda er ég með ‘væga’ söfnunaráráttu.Ég hef byrjað á tveimur öðrum peysum handa honum Mikael mínum en í bæði skiptin gefist upp þegar kom að því að gera ermar. Ég byrjaði á þessari fallegu norsku peysu þegar Mikael var 2ja ára. Tókst vel upp með búkinn en þegar kom að því að gera mynstur og auka út í ermunum þá gafst ég upp. Þessi peysa hefur legið inní skáp í 9 ár. Spurning hvort ég klári hana handa Móra.


Þó svo að ég sé prjónaklúðrari þá eru færar prjónakonur í fjölskyldunni. 

Mamma er alger snillingur þegar kemur að því að prjóna og langar mig mest að vera öflugur prjónari þegar ég sé hvaða verkefni hún er að galdra fram. Heimferðardressið hans Móra er gott dæmi um hæfileikana hennar.


Svo á ég par af sokkum sem mamma prjónaði á mig þegar ég var lítil. Þykir mjög svo vænt um að eiga þá og nota á strákana mína.


Ég á líka prjónaða nærboli sem Færeyska ömmusystir mín prjónaði á Mikael þegar hann fæddist. Mér finnst þeir einstaklega sætir en ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við þá. Móri er samt voða sætur í þeim.

Að lokum þá fann ég þennan æðislega prjónaða fíl í Góða Hirðinum á 10 kr og ég fann þennan heklaða apa á grindverki þegar ég var í göngutúr. Eftir snúning í þvottavélinni hafa þeir fengið að verða félagar í bangsasafni Móra.


Móri er mjög hrifinn af þessum bleika lit og fílar það fínt að spjalla við þennan fína fíl.Bráðum. Bráðum. Bráðum mun ég halda áfram að æfa mig að prjóna.