2ja vikna teppið

Ég heklaði teppi í október. Svona eiginlega bara alveg óvart. Og var frekar fljót að því.

Lífið atvikaðist þannig að ég fór af stað komin tæpar 34 vikur. Ég var því lögð inn á spítala og lá inni í 3 daga til þess að hægt væri að stoppa fæðinguna – og það tókst. Áður en ég skottaðist upp á spítala henti ég hekli í töskuna eins og ég geri svo oft. Heklið sem fór í töskuna voru dúllur sem ég var að hekla fyrir byrjendanámskeið sem var á dagskrá hjá Handverkskúnst.

 

teppt

Ég ætlaði bara að hekla nokkrar fyrir námskeiðið.
En eftir 3 daga rúmlegu og ekkert nema tíma til að hekla
þá hafði ég heklað 60 dúllur þegar kom að því að fara heim.
(Tek það fram að maðurinn minn og mamma komu með meira garn upp á spítala handa mér,
ég var ekki með svona svakalegt magn af garni í töskunni).

teppr

Eftir að ég kom heim átti ég að vera rúmliggjandi og hélt því áfram að hekla.
Á næstu dögum heklaði ég 60 dúlllur til viðbótar.

teppe

Á meðan ég var enn rúmliggjandi gekk ég frá öllum endum. Það tók ekki nema 1 dag.
Dúllurnar voru gerðar úr Kambgarni sem ég átti til heima og réð það litavali.

teppq

Búin að raða dúllunum upp í skipulagt óskipulag.

teppw

Móri (með risa glóðarauga) sat með mömmu
og passaði upp á að þetta færi ekki í klúður.
Aldrei þessu vant þá rústaði hann ekki öllu fyrir mér.

*****

Þegar kom að því að hekla dúllurnar saman mátti ég fara að hreyfa mig aðeins svo það tók mig örlítið lengri tíma en að hekla dúllurnar. Ekki mikið þó. Var í viku að hekla teppið saman og hekla kant á teppið.

052

Ég heklaði teppið saman með svokallaðri join-as-you-go aðferð.
Eða heklað-saman-jafn-óðum eins og það myndi beinþýðast.
Þá hekla ég það saman um leið og ég hekla síðustu umferðina.

056

 

Ég varð að kaupa mér 4 dokkur af hvítu Kambgarni til þess að tengja dúllurnar saman.
En annars átti ég allt annað garn til heima.

055

 

Er barasta nokkuð sátt með teppið mitt.
Sem ég er að hugsa um að kalla Gissunni
því maðurinn minn vill ekki nefna dóttur okkar því nafni.

tepp

 

Ég byrjaði að hekla þennan kant um teppið.
En viti menn. Garnið kláraðist svo ég gat ekki klárað.
Er það ekki alveg týpískt svona fyrir afgangateppi?

044

 

Ég var í vandræðum með að láta einn lit endast heila umferð.
Það gerist oft þegar verið er að nota afganga.
Mér datt í hug að hekla með einum lit hverja hlið á teppinu – og ég er að fíla það í botn.

047

 

Ég er hins vegar ekki að fíla bláa kantinn nógu vel
og planið er að skipta honum út fyrir hvítt bara.

045

 

Þess má til gamans geta að það tók mig um mánuð að mynda teppið sem ég var svona svakalega fljót að hekla.
Og Móri var ekki alveg jafn góður þegar ég var að reyna að mynda teppið heldur rústaði hann uppstillingunum mínum nokkrum sinnum. Enda átti ég að vera að horfa á hann hekla en ekki taka myndir af eitthverju hekli.

 

Tvöfalt prjón er vinsælt og ekki að ástæðulausu :)

Það eru ekki mörg ár síðan ég sá fyrst prjónað með tvöfalt prjón aðferðinni. Þessi aðferð vakti athygli mína á Ravelry.com og prjónaði ég einn trefil. Tók mig um 2 vikur að prjóna hann en aðferðin greip mig og mér þótti mjög gaman að prjóna trefilinn.

Hauskuputrefill_medium

Ég lagði þessari tækni síðan til hliðar og prjónaði ekki í 2 ár með aðferðinni tvöfalt prjón en auðvitað er ég alltaf prjónandi svo margt annað rann af prjónunum bara ekki tvöfaldar flíkur 🙂

Haustið 2012 byrjuðum við mæðgur með Handverkskúnst og ákváðum að halda námskeið og kenna prjón og hekl. Ég hafði horft lengi á hekluðu bjöllurnar sem allir voru að gera og þótti þær gífurlega fallegar. En þar sem ég er mun sterkari í prjónaskap en hekli hafði ég aldrei lagt í að hekla mér seríu. Var reyndar svo heppin að dóttir mín gaf mér eina svo ekkert rak mig áfram í að læra að hekla þær.

hekluð sería frá EKG

Heklaðar bjöllur

Aftur á móti hvatti Elín mig til að prjóna bjöllur og var hún viss um að einhverjar myndu vilja prjóna sér líka seríu. Úr varð að ég settist og byrjaði að prjóna og rekja upp og prjóna þar til ég fann rétta stærð og úr urðu 4 mismunandi munstur af bjöllum.  Viti menn bjöllurnar vöktu gífurlega athygli og margar komu á námskeið og fjöldi annarra keypti sér uppskriftina. Svo ég var ekki sú eina sem langaði í bjöllur á seríuna mína en bara ekki heklaðar heldur prjónaðar 🙂

Bjöllur_minnkuð

Prjónaðar bjöllur

Ég ákvað nú fljótt að ekki gæti ég bara verið að kenna fólki að prjóna bjöllur svo eitthvað fleira yrði nú að koma til. Þá ákvað ég að draga fram aftur tvöfalda prjónið. Prjónaði nokkrar húfur og setti saman námskeið.

DK_Allt í bland

DK_Micha

Micha frændi valdi sér hauskúpur á húfuna sína

DK_Stina

Stína frænka var heldur betur ánægð með Hello Kitty húfuna sína

Það er ekki að ástæðulausu sem þetta námskeið er það allra vinsælasta og hefur sprengt allar mínar væntingar til áhuga fólks á þessari tækni. Þessi prjónaaðferð er svo skemmtileg og alls ekki flókin þegar tæknin er komin á hreint. Útkoman er skemmtileg og hefur marga góða kosti t.d.:

 • flík sem snúa má á báða vegu
 • engir þræðir að flækja sig í á röngunni
 • munstur herpist ekki
 • extra hlý flík en ekki of þykk eða óþjál
 • barnið fer aldrei í flíkina öfugt því sama er hvor hliðin snýr út

Vettlingar ugla og köttur

Ungbarnavettlingar

sokkar

Ungbarnasokkar (sama parið sitthvor hliðin)

fuglavettlingar_bakhlið

Kvenmannsvettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

fuglavettlingar

Kvenmannsvettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

Kaktus

Herravettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

teppi hlið A

Barnateppi (hlið A)

teppi hlið B

Barnateppi (hlið B)

Svo þú sér lesandi góður að það er ekki að ástæðulausu sem þessi námskeið hafa notið svona mikilla vinsælda. Ekki bara skemmtileg prjónaaðferð heldur mjög svo mikið notagildi í flíkinni sem þú prjónar.

Það er nú einu sinni svo að alltaf vill maður læra meira og meira svo þegar þú hefur náð góðu valdi á þessari aðferð með tveimur litum ferðu að vilja læra meira eins og t.d. að prjóna sitthvort munstrið þannig að útkoman verður áfram tvær flíkur en ólíkar þar sem hliðarnar skipta ekki bara um lit. Nú eða bæta við lit númer 3 og jafnvel 4.

529206_433423366747223_3230446_n

Herrahúfa (sitthvort munstrið)

peysan

Barnapeysa (sitthvort munstrið)

Ég er með fast aðsetur í Reykjavík með námskeiðin mín en fer út á land þegar pöntun berst og hef virkilega gaman að því að ferðast og hitta prjónakonur og -menn (reyndar bara fengið einn karlmann á námskeið til mín) um allt land.

Í nóvember ætla ég að vera á Akureyri og Ísafirði svo ef þú hefur áhuga á að koma á námskeið og/eða þekkir einhverja sem hafa áhuga þá endilega deildu þessu áfram til þeirra. Dagsetningar koma hér fljótlega

Tvöfaldar prjónakveðjur,
Guðrún María

Nýr erfingi – nýtt teppi

Nú er það orðið opinbert að ég á von á enn einum erfingjanum. Í þetta sinn er lítil dama á leiðinni. Sem er voða spennandi þar sem ég á tvo yndislega stráka fyrir. Svo fæ ég alltof sjaldan tækifæri til að hekla bleik teppi.

533566_484502701641266_667069689_n20 vikna sónarmynd og byrjunin á nýja teppinu.

1017428_481472078610995_105546615_nMín með 20 vikna bumbu.

Ég beið og beið eftir 20 vikna sónarnum til að geta farið að versla garn í „réttu“ litunum. Ég var svo viss um að ég væri að fá þriðja strákinn að ég var alveg með það á hreinu hvaða stráka liti ég ætlaði að nota. En svo kom í ljós að lítil stelpa var á leiðinni og þá var ég engan vegin með litavalið á hreinu. Við mamma skelltum okkur í A4 og röðuðum saman litum þar til ég var sátt með mitt.

025

029Ég endaði á að kaupa mér Dale Baby Ull því það er í uppáhaldi hjá mér. 
Valdi mér þessa fimm liti.

Ferningarnir sem ég er að hekla kallast Granny Arrow Square. Á rúmri viku er ég búin að hekla næstum alla 70 ferningana sem þarf í teppið. En ég sé það að ég á eftir að vera heillengi að ganga frá öllum endunum. Ég ákvað raða litunum ekki eins í öllum ferningunum og tók myndir af ferningunum eftir því að þeir stækkuðu, finnst gaman að sjá mismunandi litasamsetningarnar þróast. Og ég verð að segja að mér finnst þessir litir sem ég valdi mér passa alveg svakalega vel saman.

4umf4 umferðir komnar.

5umf5 umferðir komnar.

6umf6. umferðir komnar.

Að lokum læt ég fylgja með eina mynd af stóra litla barninu mínu honum Móra
sem er dyggur aðstoðarmaður mömmu sinnar þegar kemur að öllu garntengdu.

003

 

Teppakveðjur
Elín c“,)

Í fréttum er þetta helst

Stundum finnst mér eins og ég verði að gera massa stórt teppi til þess að geta prufað nýtt hekl. En ég nenni ekki alltaf að gera heilt teppi og því sleppi ég að prufa. En eftir að ég byrjaði í skólanum og er búin að vera að gera alls kyns prufur og þá er ég uppnumin af þeirri snilld sem prufur eru.
Þannig að um daginn gerði ég prufur. Sofia frænka kom í heimsókn frá DK og kenndi mér að gera Lævirkjahekl (Larksfoot). Sem er virkilega skemmtilegt en einstaklega auðvelt hekl.

Ég gerði líka prufu að annari týpu af hekli. Ég sá teppi sem Kata ská-frænka mín var að hekla og ég hef ekki séð áður, held að hún hafi fundið það í gömlu blaði. Fannst það virkilega skemmtilegt svo ég tók mynd af því og hermdi. Finnst þetta einstaklega töff.

Í skólanum er ég að byrja í Efnisfræði og klára þannig önnina. Þetta gæti orðið mjög áhugavert. Við byrjuðum efnisfræðina á að læra um íslensku ullina og svo fengum við prufur að alls konar ull sem er ekki algeng á Íslandi (eða ég held allavegana ekki). Þarna var angóru-ull, llama-ull, vísunda-ull, sauðnauts-ull, kamel-ull, kínversk kiðlinga-ull. Ég þarf algerlega að skoða ullargarn betur.
Um daginn fór ég í A4 og keypti mér hamingju í formi Kambgarns á afslætti. Ég keypti alveg massa mikið af garni í hellings litum…án þess að hafa nokkuð ákveðið verkefni í huga. Ég veit ekki hvort mér á að finnast það sorglegt eða ekki hvað mér finnst gaman að kaupa garn.

Það er búið að vera mikið að gera í skólanum og lífinu svo ég hreinlega varð að hafa heklverkefni við höndina til að stelast í á kvöldin. Vinapar okkar á von á litlum manni í heiminn 29. nóvember og tilvalið að smella í eitt teppi handa honum og nýta þannig Kambgarnið sem ég keypti og nýja Lævirkjaheklið.
Ef ykkur finnst Lævirkjaheklið flott og langar að læra
þá verð ég með námskeið miðvikudaginn 21. nóvember.

Allt er framförum háð

Mér miðar hressilega áfram með teppið mitt. Er búin að vera að hekla það í ca. 5 vikur núna og það er orðið ca. 150 cm á lengd. Fer bráðum að vera búin – vonandi – því það eru bara 30 cm eftir.

Ég er ekkert smá ánægð með þetta teppi og verð meira og meira hrifin af því eftir því sem ég hekla meira og meira.


Ég ákvað að hafa litina ekki alltaf í sömu röð…en auðvitað er regla í óreglunni…ég er ekki fær um neitt annað.

Þó ég sé hrifin af öllum þessum litum…


…þá er þetta litacombo alveg uppáhalds.
Baby grænn, blár og hvítur glimmer.
Langar að gera sér teppi með þessum litum.

Þegar ég er búin að hekla teppið sjálft þá er bara eftir að ganga frá nokkrum endum.
Vildi óska að ég færi að venja mig á það að hekla endana inní heklið jafnóðum.
Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.


Aþena systurdóttir mín er svo hrifin af teppinu að hún bókstaflega slefar yfir því.Nýtt teppi

Er byrjuð að hekla nýtt teppi. Sófateppi í fullorðinsstærð. Ég elska að hekla almennt. En að hekla teppi er án efa mitt uppáhalds. Svo ég er mjög spennt.

Fann ekki alla litina sem ég vildi í sömu garn tegund svo ég fór um „allan bæ“ að finna litina sem mig langaði í.
Bleikt og blátt Kartopu úr A4

Rautt Aran úr Hagkaup

Gult Carolina úr Hagkaup

Baby grænt King Cole úr Rúmfó

Bumbo glimmergarn hvítt/beis og rautt frá Ömmu

Rautt glimmer Capri garn líka frá Ömmu

Þegar ég valdi mér liti til að hafa sá ég þetta bara fyrir mér í hausnum en var alls ekki viss um hvort þetta myndi passa. Ekki fyrr en ég var búin að fara eina umferð með öllum litunum. Mér finnst þetta smellpassa og er ekkert smá ánægð með teppið só far.

Er með rúmlega 1 og 1/2 kg af garni, vonandi dugar það til verksins. Set inn fleiri myndir þegar þetta er búið.Stör teppi – uppskrift

Það er svo einfalt að hekla þetta teppi.

Þrátt fyrir einfaldleika sinn er hægt að gera teppið mjög svo flott með því að velja skemmtilega liti. Og áferðin er svo skemmtileg.

Uppskrifin:
Ath: Notið stærri heklunál en þið mynduð vanalega nota með því garni sem þið veljið. Mynstrið í þessu teppi er frekar þétt og ef teppið er heklað of fast þá verður það of þykkt í sér og ekkert sérstaklega þægilegt.
Fitjið upp margfeldið af 3, bætið svo við 2 ll.
1. umferð: 1 hst í 3. ll frá nálinni, 1 st í sömu lykkju, *hoppið yfir 2 ll, 1 fp, 1 hst, 1 st allt í 3. ll frá nálinni*, endurtakið frá * til * þar til 3 ll eru eftir af upphafslykkjum, hoppið yfir 2 ll, 1 fp í seinustu ll.
2. umferð: Snúið við. 1 ll, 1 hst, 1 st í fyrstu lykkju (eða seinasta fp fyrri umf), *hoppið yfir 2 lykkjur, 1 fp, 1 hst, 1 st í 3. lykkju frá nálinni (fp fyrri umf)*, endurtakið frá * til * þar til 3 lykkjur eru eftir af umf, hoppið yfir 2 lykkjur, fp í 1. ll fyrri umferðar. (Það er stundum smá vesen að ná í þessa ll en það kemst fljótt upp í vana).
Endurtakið 2. umferð þar til teppið er orðið eins langt og þið viljið hafa það.

 


Kannturinn:
Áður en ég hekla kannt á Stör teppið geri ég eina til tvær um ferðir af fp. Svo geri ég þann kannt sem heillar mig þann daginn.
Blúndukanntur
Hnútakanntur

Gangi ykkur vel og góða skemmtun c“,)

Nýjasta teppið

Ég hef verið svo lélegur bloggari upp á síðkastið að ég skammast mín næstum fyrir það. Núna er ég loks búin í prófum og komin í frekar langt jólafrí svo ég ætti að geta bloggað meira. Í það minnsta heklað meira.
Ég náði þó að klára teppið sem ég hef verið að dunda mér við. Ég var samt ekkert svo lengi að þessu, bara um 6 vikur eða svo. Útkoman er frábær þótt ég segi sjálf frá. Ég er ekkert smá ánægð með teppið, get ekki annað en brosað þegar ég horfi á það.
 • Ferningurinn heitir Yarn Clouds Square og er uppskriftin fríkeypis á Ravelry.
 • Ég notaði heklunál nr. 3,5 og Baby Ull garn frá Dale.
 • Í teppið fóru alls 14 dokkur.
  – 1x gul
  – 2x appelsínugular
  – 3x ljósari Bláar
  – 4x dekkri Bláar
  – 4x ljós Beige
  Sem gerir þetta að dýrasta teppi sem ég hef gert.
 • Í teppinu eru 50 ferningar.
 • Teppið er 60×120 cm og ætti því að smellpassa í rimlarúm.


Ég ákvað að sauma ferningana saman. Það tekur mikið lengri tíma en að hekla það saman en mér finnst það bara koma svo fallega út.


Utan um teppið heklaði ég tvær umferðir af fastapinnum með ljósari bláum og gerði síðan hnúta kannt með dekkri bláum.Ferningarnir séð á réttunni og röngunni.


Og svo ein af henni Guðmundu minni með teppinu. Hún er eins og ég hef sagt áður aldrei langt undan þegar það kemur að hekli.
Verð að taka myndir af teppinu í rimlarúminu þegar það er komið upp. Og svo auðvitað með litla þegar hann er kominn í heiminn.

Hægt og rólega hefst það

Ég er að fá smá raunveruleika tékk um þessar mundir. Ég hélt að lífið yrði svo einfalt og auðvelt þegar ég færi í Háskóla. Ég myndi nú pottþétt hafa meiri frítíma til að sinna áhugamálum meira en þegar ég var í fullri vinnu. En svo er ekki aaaalveg raunin. Það er hörkupúl að vera í Háskóla og ég hef minni tíma til að hekla ef e-ð er og hvað þá að blogga um þetta litla hekl mitt.
En ég er þó búin að vera að hekla smá. Er byrjuð að hekla aðeins fyrir jólin og svo er ég byrjuð á nýju barnateppi. Í þetta sinn handa sjálfri mér. Eða réttara sagt mínum eigin erfingja. Það er víst alveg kominn tími á að gera það opinbert en ég á von á litlum gaur þann 17. febrúar 2012.

Ég er nú þegar komin með eitt teppi handa gaurnum mínum þar sem systir mín (sem er sett 17. janúar 2012) á von á stelpu en ekki strák eins og hún var svo viss um.

Mig langaði að gera e-ð nýtt og öðrvísi en ég er vön að gera. Og ég ákvað að gera sér teppi sem á að vera rúmteppi. Ég fann um daginn á þessu hekl bloggi svo geggjaðann ferning sem ég varð að gera. Uppskriftina er hægt að fá hér á Ravelry.
Ég tók myndir af ferningnum í gegnum ferlið og ætlaði að gera svona töff hreyfimynd. En e-ð voru Photoshop hæfileikar mínir að svíkja mig. Svo engin hreyfimynd.

Umferð 1

Umferðir 2 & 3

Umferðir 4 & 5

Umferðir 6 & 7

Umferðir 8 & 9
Ferningurinn er alls ekki erfiður að hekla. En þar sem ég hef ekki allan tímann í heiminum þá mun það örugglega taka mig smá tíma að gera það. Ef mælingar mínar eru réttar þarf ég að gera 50 ferninga og ég er búin með 12.
Þar til næst…

Teppið hennar Emilíu Mist

Ég hef gert aragrúa af barnateppum og flest þeirra strákateppi. Því verð ég alltaf sérstaklega spennt þegar ég fæ að gera stelputeppi.

Í haust kom í ljós að litlasta systir mín væri ólétt og fór hausinn á mér á fullt að hugsa um allt sem ég gæti og ætlaði að hekla handa litla barninu. Húfur, vettlinga, sokka, skó, peysur, auðvitað teppi – og já bara heilan helling! Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að hekla handa litlum börnum ekki satt.

Þegar leið á meðgönguna kom í ljós að það var ekki allt eins og það ætti að vera. Og litla barnið var mjög veikt. Við héldum lengi í vonina að allt myndi vera í lagi…en þegar tíminn leið þá kom það betur í ljós að það var því miður alls ekki í lagi.

Því fæddist litlasta frænka mín andvana langt fyrir sinn tíma.

Emilía Mist
f. 17. desember 2010

Hún var svo pinku ponsu lítil, bara 24 cm og 1 mörk, en hún var samt svo sæt.
Alveg ótrúlega smá en samt alveg tilbúin og ótrúlega fullkomin.


Hún fékk samt sem áður teppið sitt – það bara mjög sætt þótt ég segi sjálf frá – og fékk teppið að fara með henni í kistuna þegar hún var jörðuð í dag.