Sarafia – bleikt og grænt

Ég smellti í annað teppi á dögunum. Þetta er annað teppi sem ég kýs að kalla Sarafia. En ástæðan fyrir því er vegna þess að ég fékk innblástur frá Söru og Sofiu þegar ég gerði fyrsta teppið.
Ég er ógeðslega sátt með teppið og finnst þessir litir séu fæddir til að vera saman.


Teppið er heklað með nál nr 3,5. Garnið er samsuða af nokkrum tegundum. Dekkra græna og bleika er Mayflower Hit Ta-too sem ég fékk sent frá DK, man ekki hvað græna marglita heitir en það er keypt í Rúmfó, hvíta garnið er Big Value Baby líka úr Rúmfó.
Allt þetta garn er akríl. Enda elska ég akríl ❤

Fullt fullt af ferningum

Ég byrjaði fyrir löngu síðan að gera fullt af ferningum úr garni sem ég átti. Planið var að gera rúmteppi handa mér. En eins og svo oft áður þá snýst mér hugur áður en ég klára verkið. En þar sem ég var búin að hekla alveg fullt fullt af ferningum ákvað ég að gera frekar nokkur barnateppi og reyna að selja þau bara.

Só far er ég búin að klára tvö teppi. Fjólubláa og Bláa. Ég missti mig aðeins með myndavélina að taka myndir af þeim svo það eru margar margar myndir…en það er alltaf gaman af myndum.

Fjólubláa teppið er því miður eiginlega í minni kanntinum en ég átti ekki næga ferninga til að hafa það stærra. Frekar pirrandi þegar það vantar 2 eða jafnvel 1 ferning til að klára…og allt garn er búið. Það er samt ekkert dvergteppi…bara ekki jafn stórt og ég vildi hafa það. En það er 5×7 eða alls 35 ferningar.

Ég heklaði það saman með því að snúa ferningunum saman á röngunni og hekla keðjulykkjur aðeins í aftari lykkjurnar. Þyrfti eiginlega að eiga mynd af því hvernig þetta er framkvæmt…finnst merkilega erfitt að útskýra það. Anywho.

Ég gerði svo tvær umferðir af fastapinnum utan um og gerði hnúta í þeirri seinni.

Svo verður að fylgja ein mynd af Guðmundu bollukisu að hafa það náðugt…þar sem er garn þar er Guðmunda.


Bláa teppið. Vá það heppnaðist svo skemmtilega vel. Ætlaði upprunalega að hafa bara tvo liti. En viti konur það vantaði 2 eða 3 ferninga til að það heppnaðist. Svo ég bætti þriðja litnum við…þessum dökk bláa…og ég er ekkert smá glöð með það. Þetta teppi er sem betur fer stærra og er 6×8 eða alls 48 stk ferningar.
Mér finnst það alveg geggjað…svo geggjað að ég missti mig algerlega í að taka myndir af því.

Ég ákvað að prófa nýja aðferð við að hekla saman…reyndar er þetta í fyrsta skiptið sem ég notað báðar þessar aðferðir til að hekla saman. Í þetta sinn voru ferningarnir lagðir saman á réttunni og heklaðar keðjulykkjur í aftari hluta lykkjunar. Útkoman er voða slétt og felld.

Ég ætlaði að reyna nýja týpu af kannti utan um þetta, en eftir tvær misheppnaðar tilraunir þá ákvað ég að halda mig bara við hnútana. Enda er ég voða skotin í þessum hnútum.

Það kemur einstaka sinnu fyrir líka að Panda skinnið sýnir heklinu áhuga líka.
Ég á enn fullt af ferningum sem stendur til að gera fleiri teppi úr. Hendi með nokkrum myndum…svona afþví að ég er hvort eð er búin að tapa mér í myndunum…af litasamsetningum í næstu teppum.





Beggubörn & Hekl

Við Freyr skelltum okkur í heimsókn til Beggu systur hans í dag. Hún var að eignast nýjan erfingja síðast liðinn þriðjudag. Ég var auðvitað búin að gera teppi handa prinsinum svo við mættum þangað færandi hendi.

Fyrsta myndin er af fröken Daníelu Dögg sem verður 8 ára í ágúst. Henni finnst heklið mitt mjög spennandi og vill ólm að ég kenni henni. Hún fékk að taka með sér smá renning heim úr seinustu heimsókn frá okkur og æfði sig að gera fastapinna. Hún var ekki alveg nógu sátt með útkomuna hjá sér og bað mig um að rekja þetta bara upp hjá sér. Ég er ekki alveg nógu klár á því hvernig á að kenna börnum að hekla. En ég fann áhugaverða grein á netinu sem ég ætla að lesa. Og vonandi er Daníela til í að gefa mér annað tækifæri á að kenna sér.

Guðmundi Óskari bróður hennar fannst þetta mjög spennandi líka. Ætli hann verði næsta fórnarlambið mitt…eða ætli áhugi hans á garni rjátlist af honum með aldrinum?

Og hér er svo stolta stóra systirin með nýja bróður Guðjóni Orra. Ég fékk að vefja hann í teppið og smella af honum nokkrum myndum.


Ég var ekki viss hvort teppið væri nægilega stórt…en hann rúmast vel í því enn sem komið er.

Algert krútt hann litli sem svaf svo vært nær allan tímann sem við vorum í heimsókn.

Þá er bara eina systkinið sem á eftir að fá teppi hún Daníela. Hver veit nema ég skelli mér í það við tækifæri. Ég fæ alltof sjaldan að gera stelputeppi – eiginlega bara aldrei – sem er eiginlega sorglegt því ég ELSKA bleikt.

Bylgjuteppi – til sölu

Fyrir nokkru bloggaði ég um ‘Teppið sem aldrei varð úr…’ – bylgjuteppi sem ég byrjaði að gera en hætti við. Ég tók afgangana og gerði annað teppi. Lítið alveg svaka bleikt stelputeppi. Systir mín ætlaði að gefa vinkonu sinni það en hætti við. Svo að nú á ég þetta fína teppi sem ég hef ekkert að gera við.
Svo ég er að hugsa um að gera heiðarlega tilraun til að selja það.

Teppið er úr ullargarni og er mjög þétt heklað svo það er örugglega mjög hlýtt.
Stærðin á því er 71×79 cm.
Verð 4500 kr.

Á nálinni #2

Ég hef oft ætlað að gera handa sjálfri mér rúmteppi en hef aldrei náð að ákveða hvað það er sem ég vill. En ekki fyrir svo löngu fann ég góða hugmynd – að mér fannst – og ég byrjaði að hekla. Fyrst ætlaði ég að nota allt græntóna garnið sem ég átti – því ég átti soldið mikið af því. En Jóka vinkona stakk upp á því að ég myndi bæta fleiri litum við og Gyða vinkona var sammála.

Svo ég tók saman allt garnið sem ég átti og gerði nokkrar litaprufur. Mér finnst það koma miklu betur út.

Svo nú er á nálinni önnur litasprengja – með samt hvítu ívafi.

Bleiku litirnir tveir.
Annar er ljós laxa baby bleikur – mjööög sætur – og hinn er alveg æpandi bleikur og ekkert smá töff!

Græn-Gulu litirnir.
Þessi guli skilar sér engann veginn á myndinni – en hann er alveg neeeeon – mér finnst hann geggjaður en það eru ekki allir sem fíla svoleiðis. Hinn græni er svona ljós epla græn – ef það meikar sense – hann er ekki heldur alveg að skila sér á myndinni.

Bláu litirnir.
Annar er svona túrkís – eða þannig – og hinn dökkblár.

Grænu litirnir.
Mosagrænn og annar soldið grasgrænn.

Fjólubláu litirnir.
Uppáhalds dökkfjólublái liturinn minn – sem ég kann bara ekki að taka mynd af – og ljósari fjólublár. Báðir rooosa flottir.

Allir litirnir saman. Mér finnst þeir ekkert smá flottir allir.

***

Svo er það nýjasta garnið sem ég var að kaupa í Rúmfó og Europris.

Vantaði fullt meira hvítt í teppið mitt.

Blátt sprengt ullargarn úr Europris.
Ætla að hekla sokka úr því, vona að þeir verði stærri en pínuponsu sokkarnir sem ég heklaði um daginn.

Ég keypti líka gult King Cole garn í Rúmfó, hef ekkert við það að gera ennþá en er bara svo skotin í gulum þessa dagana. Svo er hin dokkarn ullar-akríl-nælon blanda úr Europris…litirnir eru bara töff.

Og ein að lokum til að sýna Jóku að blaðarekkinn minn er víst töff.
Keypti það á 400 kall í Góða og ætla að mála það hvítt eða e-m öðrum fallegum lit. Er ekki enn búin að ákveða mig.

3hyrningateppið

Það er alltaf spennandi að byrja á nýju hekli sem mar hefur ekki áður gert. En það fylgir því einnig að prófa sig áfram þar til mar finnur rétta taktinn. Ég er ekki þolinmóðasta manneskjan og varð ég nett pirruð stundum þegar þetta var ekki aaaaalveg að ganga upp hjá mér.

Ég var búin að blogga eina færslu um 3hyrningana og vesenið með litavalið á þeim. En annars var ekkert mál að gera 3hyrningana sjálfa. Ég gerði 54 3hyrninga. 18 af hverjum lit – ef ég reiknaði þetta rétt. Og þegar það var búið að ganga frá þessum rúmlega 110 endum – mér finnst það aldrei gaman að ganga frá endum – þá var byrjað að hekla það saman.

Upprunalega ætlaði ég að hekla þá saman á röngunni með keðjulykkjum en ég lenti í þvílíkum vandræðum með öll samskeyti svo ég gafst upp á þeirri hugmynd og fór aftur í það sem ég geri alltaf – hekla þá saman á réttunni með fastapinnum.
Þar sem fastapinnarnir halla aðeins þá passaði ég mig á því að hekla alltaf í sömu átt – svo allt myndi halla í sömu átt.

Lokaútkoman er svo æðisleg þótt ég segi sjálf frá! Ég er ekkert smá sátt með þetta hjá mér!

Teppið í öllu sínu veldi – á réttunni

Séð aðeins nær – á réttunni

Nærmynd af samskeytunum – á réttunni

Teppið í öllu sínu veldi – á röngunni

Séð aðeins nær – á röngunni

Nærmynd af samskeytunum – á röngunni

Heklaði 2 umferðir af fastapinnum
og hafði svokallaða „picot“ í seinni umferðinni til að fá þessa litlu hnúða.

Er mjöööög sátt með útkomuna

Ein krumpumynd í lokin

Teppi handa Guðmundi Óskari

Ég lá inná spítala í febrúar 2009. Það var ekki það skemmtilegasta sem ég gerði og leiddist mér afskaplega. Því var tilvalið að nýta tímann og hekla. Begga systir hans Freys var þá nýbúin að eignast strákinn sinn – Guðmund Óskar. Og því eiginlega bara meant to be að hekla handa honum eitt stykki teppi.

Ég ákvað að gera fullt af litlum ömmu-ferningum og hekla saman. Ég fór í Molý og keypti mér risa 400 gramma dokkur af bláu og hvítu og keypti svo 2 dokkur af grænu úr e-u öðru garni sem ég man ekki hvað heitir.
Ég notaði heklunál nr. 3 – sem var eiginlega of lítið fyrir þetta garn.

Það eru ekki allir jafn hrifnir af risa akríl dokkunum sem er verið að selja…en ég elska þær…og ég elska akríl.

Ferningarnir urðu rúmlega 80 og ég ætlaði aldrei að klára að ganga frá öllum þessum endum! Enda voru 8 endar á hverjum ferning. *úfffff*

Þetta tókst allt að lokum og teppið varð ótrúlega flott þótt ég segi sjálf frá!

Teppið hans Mikaels

Ég var að skoða einn daginn á Flickr-inu hjá Söru London. Sem er hreint út sagt hekl snillingur og idol-ið mitt. Og rakst á þessa mynd. Mér fannst þetta of töff og ég hreinlega varð að gera svona.

Þá var bara spurning handa hverjum?

Hr. Mikael varð fórnarlambið mitt að þessu sinni. Þannig að það var rölt út í Europris og keypt garn. Ég hafði hugsað mér að hafa teppið hvítt og hafa nokkra bláa liti með…kannski smá grænt. En Mikael var ekki á sömu skoðun og valdi hann þessa 3 liti – svart, rautt og blátt.

Ég hafði enga uppskrift svo ég varð bara að prófa mig áfram. Það var samt alveg merkilega auðvelt. Þeir sem eru vanir að gera ömmu-ferninga ættu ekki að vera í neinum vandræðum með þetta.

Upprunalega átti teppið að vera röndótt en mynstrið varð til fyrir mistök.
Mér líkaði það svo ég hélt því þannig.

Ég heklaði teppið í lok 2008. Í gær var ég svo að þvo teppið og steingleymdi að teppið væri úr ullargarni. Svo nú er teppið þæft.

Teppið er mest líklegast ekki ónýtt. En nú er það enn styttra á breiddina og ekki hægt að nota það sem rúmteppi lengur. Það nýtist vonandi sem sófateppi.

Hér má svo sjá ungherra Mikael stilla sér upp við teppið fyrir móður sína.
Mikael er ca. 140 á hæð, svo teppið er þokkalega langt.
Ein mynd fyrir mig…


…og ein fyrir hann c“,)

Teppið sem aldrei varð úr…

Eins og þeir sem þekkja mig vita er ég mjög dugleg að byrja á verkefnum. En ég er oft mjög fljót að fá leið á þeim líka. Oftast legg ég verkefnið til hliðar og geymi það þar til ég nenni að klára það. En oft þá rek ég allt saman bara upp.

Og þannig var það með þetta teppi mitt.

Ég ætlaði að búa til fallegt sófateppi handa Gyðu vinkonu minni sem var að verða 25 ára. Ég fann uppskrift í einni bók sem ég á eftir snillingin hana Jan Eaton sem heitir 200 ripple stitch patterns.


Því næst skellti ég mér í Europris og keypti fullt af garni þar. Þeir eru nefninlega með gott úrval af ódýru garni sem er fínt að nota í rúmteppi og sófateppi.

Og svo var byrjað að hekla.


Ég var alveg að fíla teppið í botn. Mér fannst bylgjurnar æði. Mér fannst litirnir æði. En garnið dugði skemur en ég reiknaði með. Ég hefði þurft að kaupa 3x meira en ég var þegar búin að kaupa og hefði heildarkostnaðurinn þá verið komin yfir 20 þúsund. Mér þykir óendanlega vænt um hana Gyðu mína en 20 þúsund var bara aðeins meira en ég hafði efni á að splæsa í þetta.


Þannig að ég hætti við þetta verkefni. Rakti teppið upp og notaði part af garninu í barnateppi sem var með sama mynstri.

Á þessum tíma vorum við nýbúin að fá hana Guðmundu kisuna okkar og skemmti hún sér konunglega við gerð þessa teppis. Verð að láta þær myndir fylgja með c“,)

Afganga Ást ♥

Uppáhaldsteppið mitt um þessar mundir – og kannski bara ever. Er afgangateppið mitt.

Kvöld eitt þegar ég hafði ekkert til að hekla og átti engann pening til að kaupa mér garn ákvað ég að hekla úr afgangs garninu sem ég átti.
Planið var aldrei að gera heilt teppi – hvað þá svona stórt – heldur bara til að stytta mér stundir þar til ég gæti keypt mér garn.

Svo var ég einn daginn í heimsókn hjá ömmu. Sem á meira garn en hún veit hvað á að gera við. Og leyfði gamla konan mér að hirða fullt af afgöngum frá henni. Og þegar ég segi fullt þá meina ég fuuullt.

Svo var bara heklað þar til garnið kláraðist og úr varð fallega litasprengjan mín sem ég alveg hreint elska. Það er stórt, þungt, hlýtt og hið fullkomna sófateppi.

Teppið er samt ekki alveg tilbúið. Garnið kláraðist þegar ég var að hekla hringinn…mér finnst það ekki passa að kaupa garn til að klára teppið. Svo ég bíð þar til rétti afgangurinn kemur með að klára það.