Janúarprjónið

Þá er fyrsti mánuður ársins liðinn og ég búin með nokkur verkefni. Ég setti mér það markmið að prjóna 1 vettlingapar í hverjum mánuði þetta árið. Það er svo mikið til af fallegum vettlingamunstrum að maður fær nánast valkvíða 🙂

Í janúar ætla ég bara að prjóna úr garni sem ég á nú þegar og þar kem ég sko alls ekki að tómum kofanum 🙂

Byrjaði á þessari húfu strax á nýársdag þar sem hún þurfti að vera tilbúin 3. janúar. Fótboltahúfan prjónuð með tvöföldu prjóni og er gífurlega vinsæl hjá strákum og stelpum. Það er líka svo gaman að prjóna hana í litum hvers fótboltafélags fyrir sig. Þessi rauð og svört eins og t.d. Knattspyrnufélagið Víkingur er með í sínum búningi.

Garn: Dale Baby
Prjónar nr. 3,5

fótboltahúfa Dale Baby_saman_merkt

Síðan urðu þessir vettlingar fyrir valinu, sá þá á prjónasíðu á Facebook og uppskriftin er frí á Ravelry og langaði mig að hafa þá hvíta og sjálfmunstrandi garn með. Ég átti garn sem ég hafði keypt í Hagkaupm Baby ull frá Gjestal og notaði prjónar nr. 2,5.  Aftur á móti varð ég ekkert sérstaklega ánægð með fyrsta vettlinginn og hef ekki enn prjónað hinn.

Gjestal Baby ull saman

Svo sá ég þessa skemmtilegu uppskrift á síðu á Facebook sem Bitta Mikkelborg heldur úti. Hún gaf þessa uppskrift, sem heitir Myria í tilefni að því að 10.000 like voru komin á síðuna hennar. Það er leikur í gangi þegar þú prjónar þetta munstur þar sem þú kastar teningi og prjónar það munstur sem hefur sama númer og kemur upp á teningnum hverju sinni. Svo ef þú prjónar fleiri en 1 par af þessum vettlingum verða þau sennilega ekki í sömu röð munstrin, mér þykir þetta skemmtileg hugmynd hjá henni.

Garn: Arwetta Classic
Prjónar nr. 2,5

Myria_Arwetta Classic_merkt

Hún Bitta er í miklu uppáhaldi hjá mér og þessa vettlinga gefur hún fría á Ravelry. Ég ákvað að prófa í fyrsta skipti að prjóna kaðla án hjálparprjóns/kaðlaprjóns og það var bara mjög þægilegt, var búin að mikla það svo fyrir mér.  Uppskriftin gerir ráð fyrir Nepal eða Lima garni frá Drops og þar sem ég á nokkrar Nepal dokkur þá skellti ég í eitt par 🙂

Garn: Drops Nepal
Prjónar nr. 4

Bittas mittens_Drops Nepal_merkt

Þar sem ég hef verið í öðru verkefni á daginn og nánast bara prjónað á kvöldin í janúar valdi ég þessa peysu sem er fljótleg og þægilegt að prjóna yfir sjónvarpinu. Þetta munstur hefur verið gífurlega vinsælt í Færeyjum undanfarin ár. Þegar ég fór þangað sumarið 2012 voru í Þórshöfn sennilega um 70% kvennþjóðarinnar í svona peysum með alls konar útfærslum. Stjarnan er gamalt færeyskt munstur. Ég hef prjónað tvær heilar úr léttlopa fyrir frænkur mínar en prjónaði þessa á Maíu Sigrúnu í stærð 1 árs, engin uppskrift bara sniðið utan um stjörnumunstrið.

Garn: Navia Duo
Prjónar nr. 4

Stjörnupeysa á Maíu_Navia Duo (1)merkt

Maía mín er alltaf svo köld á höndunum og vantaði vettlinga til að sofa með sem hún gæti ekki rifið af sér. Svo amma prjónaði þessa eitt kvöldið úr afgangsgarni sem ég átti.

Vettlingar á Maíu1_merkt

Þessi ágæta silkihúfa er búin að vera prjónuð og rakin upp aftur og aftur, ég bara náði ekki réttri stærð fyrir Maíu. Ýmist var hún alltof stór eða alltof lítil. Ótrúlegt þegar svona smáverkefni vefjast fyrir manni. Ég prjónaði hana í hring úr silkigarni sem Elín mín átti afgangs en hana langaði að eiga hjálmhúfu sem passaði strax á litlu prinsessuna sína.

Garn: Jaipur fino
Prjónar nr. 2,5

Silkihúfa saman

Ég er bara nokkuð sátt við útkomu janúarmánaðar og það sér ekki á garnbirgðum mínum að ég hafi tekið af þeim til að prjóna þessi verkefni. Ég er með langtímaverkefni á prjónunum líka, sófateppi fyrir Aþenu og Móra úr tvöföldu prjóni. Gott að hafa svona að grípa í þegar maður vill taka því rólega.

Prjónakveðja
– Guðrún

Jólagjafaprjónið

Nú þegar allir hafa opnað jólagjafirnar er óhætt að setja inn á netið myndir af því sem prjónað var. Ég prjónaði nánast allar gjafirnar fyrir jólin í fyrra en í ár prjónaði ég bara 4 gjafir. Þær féllu vel í kramið og ég er alltaf glöð þegar ég sé að rétt var valið hjá mér fyrir viðkomandi einstakling og gjöfin verður notuð 🙂

Ég sá á einni norskri Facebook síðu um daginn spurningu sem ein kona setti inn. Hún spurði hópinn hvort þær héldu nú ekki að ættingjar þeirra væru orðnir þreyttir á að fá þessar handprjónuðu gjafir frá þeim? Ég vona að mínir ættingjar og vinir láti mig nú vita ef þeim þykir nóg um en það er bara að mínu mati alltaf gott að fá hlýja húfu eða vettlinga svo ég tali nú ekki um gjöf sem er handprjónuð og unnin með gleði og hlýju frá frænku, ömmu eða mömmu til viðkomandi aðila. Eða hvað finnst ykkur?

Tengdasonur minn er mikill unnandi þungarokks og hauskúpna. Þannig að þegar ég sá þetta munstur hjá Jordis mønsterbutikk kom ekki annað til greina en að prjóna vettlingana handa honum. Uppskriftin er sögð passa á lítinn karlmann þannig að ég prjónaði þá úr Dale Falk garni og á prjóna nr. 3,5 og pössuðu þeir þá fínt á Gissur minn sem er hávaxinn karlmaður,

Gissurs vettlingar Dale falk prjónar nr. 3.5 copy

Framhliðin er með gítar og fleira en bakhliðin hauskúpur. Gissur var alsæll með þá 🙂

Ingibjörg frænka fékk húfu. Ég var búin að sýna frænkum mínum mynd af húfu sem mér þótti svo falleg en hún var bara afleit þegar ég hafði prjónað hana. Þá sá ég þessa fallegu húfu á Facebook og fékk ég uppskriftina Kertalogi og garnið Semilla grosso í Litlu Prjónabúðinni. Ég prjónaði lengri útgáfuna og frænka alsæl með hlýja og flotta húfu )

Ingibjorg prjónar nr 5 copy

Húfan Kertalogi frá Litlu prjónabúðinni

Ég prjónaði sokka eftir uppskrift frá Bittamis Design handa Aþenu minni fyrir veturinn. Þeir eru virkilega fallegir og ég ánægð með þessa sokka. Svo ég ákvað að prjóna eina handa Maíu minni sem er 5 vikna og fékk hún þá í jólagjöf frá frænda sínum.

Hjertejente barnesokker fyrir Aþenu copy

Aþenu sokkar prjónaðir úr Dale Falk, flottir á 2ja ára skottuna mína.

Sokkar f Maíu 2013 copy

Maíu sokkar eru prjónaðir úr Dale Baby á prjóna nr. 2,5 og passa þeir þá fínt á ca. 2-5 mánaða.

Sofia frænka í Köben er mikill heklari en þykir líka afskaplega gaman að vera með fallega vettlinga á höndunum. Hún hefur fengið nokkur pör hjá mér en þegar hún sá þessi annars ágætu hreindýr á einhverri prjónasíðu hér á netinu vildi hún ólm eignast svona vettlinga. Ég er persónulega ekki til í að eiga flík með þessari tegund munsturs af hreindýrunum og bara gat ekki sent henni í jólagjöf vettlinga með þessu munstri. Átti í þó nokkurri innri baráttu við sjálfa mig vegna þessarar bónar hennar. Á endanum ákvað ég að prjóna vettlinga úr tvöföldu prjóni þannig að hún gæti snúið vettlingunum við og fengið aðra fallega í staðinn, Setti því saman þessa vettlinga prjónaða úr Yaku ull frá Litlu Prjónabúðinni (ég hljóma næstum eins og auglýsing en þessi búð er bara í miklu uppáhaldi hjá mér)

Sofiu vettlingar Yuku garn prjónar nr 2.5 copy

Eitt par af vettlingum: hlið A (hreindýrin góðu) og  hlið B er hægra megin

Svona í lokin þá prjónaði ég vettlinga á Maíu á meðan ég sat yfir jólasteikinni á aðfangadag. Einfaldir en skemmtilegir á litlar hendur og ég fékk tækifæri til að prjóna uglu sem ég hef svo oft séð á prjónasíðunum. Læt hér fylgja með uppskrift ef einhver vill prjóna svona vettlinga. Einfalt að prjóna úr grófara garni til að fá eitthvað stærri vettlinga en þessir eru sennilega uppí ca. 4ra mánaða.

maíu vettlingar copy

Ungbarnavettlingar

Garn: Dale Baby, Lanett eða annað garn með svipaðan grófleika
Prjónar: Sokkaprjónar nr, 2,5
Aðferð:
Fitjið upp 38 lykkjur og prjónið stroff  1 slétt, 1 brugðin alls 16 umferðir. Prjónið síðan samkvæmt teikningu en aukið út í fyrstu umferð um 6 lykkjur = 44 lykkjur á prjónunum. Skiptið lykkjum jafnt á prjónana þannig að það eru 11 lykkjur á hverjum prjóni. Munstur er bara prjónað á framhlið vettlings þ.e. 12 miðlykkjurnar þannig að allar lykkjur þar fyrir utan eru prjónaðar slétt.

Umferð 1-20 er prjónuð þannig: prjónið 5 lykkjur slétt, 12 lykkjur samkvæmt teikningu, 27 lykkjur slétt

Uglumunstur maíu vettlingar íslenskt_stækkaður

Þegar munstri lýkur er komið að úrtöku þannig:
Umferð 21: 1 lykkja slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 18 lykkjur slétt, 2 slétt saman
Umferð 22: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 16 slétt, 2 slétt saman
Umferð 23: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 14 slétt, 2 slétt saman
Umferð 24: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 12 slétt, 2 slétt saman
Umferð 25:: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 10 slétt, 2 slétt saman
Umferð 26: 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman, 1 slétt, 2 snúnar slétt saman, 8 slétt, 2 slétt saman

Setjið nú lykkjurnar sem eftir eru saman á 2 prjóna 10 lykkjur á hvorn prjón. Snúið vettlingnum við, rangan snýr út og fellið af með því að prjóna lykkjurnar 20 saman eða lykkið þær saman með nál.

Uppskriftin á PDF formi

Prjónakveðja,
Guðrún María

Tvöfalt prjón er vinsælt og ekki að ástæðulausu :)

Það eru ekki mörg ár síðan ég sá fyrst prjónað með tvöfalt prjón aðferðinni. Þessi aðferð vakti athygli mína á Ravelry.com og prjónaði ég einn trefil. Tók mig um 2 vikur að prjóna hann en aðferðin greip mig og mér þótti mjög gaman að prjóna trefilinn.

Hauskuputrefill_medium

Ég lagði þessari tækni síðan til hliðar og prjónaði ekki í 2 ár með aðferðinni tvöfalt prjón en auðvitað er ég alltaf prjónandi svo margt annað rann af prjónunum bara ekki tvöfaldar flíkur 🙂

Haustið 2012 byrjuðum við mæðgur með Handverkskúnst og ákváðum að halda námskeið og kenna prjón og hekl. Ég hafði horft lengi á hekluðu bjöllurnar sem allir voru að gera og þótti þær gífurlega fallegar. En þar sem ég er mun sterkari í prjónaskap en hekli hafði ég aldrei lagt í að hekla mér seríu. Var reyndar svo heppin að dóttir mín gaf mér eina svo ekkert rak mig áfram í að læra að hekla þær.

hekluð sería frá EKG

Heklaðar bjöllur

Aftur á móti hvatti Elín mig til að prjóna bjöllur og var hún viss um að einhverjar myndu vilja prjóna sér líka seríu. Úr varð að ég settist og byrjaði að prjóna og rekja upp og prjóna þar til ég fann rétta stærð og úr urðu 4 mismunandi munstur af bjöllum.  Viti menn bjöllurnar vöktu gífurlega athygli og margar komu á námskeið og fjöldi annarra keypti sér uppskriftina. Svo ég var ekki sú eina sem langaði í bjöllur á seríuna mína en bara ekki heklaðar heldur prjónaðar 🙂

Bjöllur_minnkuð

Prjónaðar bjöllur

Ég ákvað nú fljótt að ekki gæti ég bara verið að kenna fólki að prjóna bjöllur svo eitthvað fleira yrði nú að koma til. Þá ákvað ég að draga fram aftur tvöfalda prjónið. Prjónaði nokkrar húfur og setti saman námskeið.

DK_Allt í bland

DK_Micha

Micha frændi valdi sér hauskúpur á húfuna sína

DK_Stina

Stína frænka var heldur betur ánægð með Hello Kitty húfuna sína

Það er ekki að ástæðulausu sem þetta námskeið er það allra vinsælasta og hefur sprengt allar mínar væntingar til áhuga fólks á þessari tækni. Þessi prjónaaðferð er svo skemmtileg og alls ekki flókin þegar tæknin er komin á hreint. Útkoman er skemmtileg og hefur marga góða kosti t.d.:

  • flík sem snúa má á báða vegu
  • engir þræðir að flækja sig í á röngunni
  • munstur herpist ekki
  • extra hlý flík en ekki of þykk eða óþjál
  • barnið fer aldrei í flíkina öfugt því sama er hvor hliðin snýr út

Vettlingar ugla og köttur

Ungbarnavettlingar

sokkar

Ungbarnasokkar (sama parið sitthvor hliðin)

fuglavettlingar_bakhlið

Kvenmannsvettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

fuglavettlingar

Kvenmannsvettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

Kaktus

Herravettlingar (sama parið sitthvor hliðin)

teppi hlið A

Barnateppi (hlið A)

teppi hlið B

Barnateppi (hlið B)

Svo þú sér lesandi góður að það er ekki að ástæðulausu sem þessi námskeið hafa notið svona mikilla vinsælda. Ekki bara skemmtileg prjónaaðferð heldur mjög svo mikið notagildi í flíkinni sem þú prjónar.

Það er nú einu sinni svo að alltaf vill maður læra meira og meira svo þegar þú hefur náð góðu valdi á þessari aðferð með tveimur litum ferðu að vilja læra meira eins og t.d. að prjóna sitthvort munstrið þannig að útkoman verður áfram tvær flíkur en ólíkar þar sem hliðarnar skipta ekki bara um lit. Nú eða bæta við lit númer 3 og jafnvel 4.

529206_433423366747223_3230446_n

Herrahúfa (sitthvort munstrið)

peysan

Barnapeysa (sitthvort munstrið)

Ég er með fast aðsetur í Reykjavík með námskeiðin mín en fer út á land þegar pöntun berst og hef virkilega gaman að því að ferðast og hitta prjónakonur og -menn (reyndar bara fengið einn karlmann á námskeið til mín) um allt land.

Í nóvember ætla ég að vera á Akureyri og Ísafirði svo ef þú hefur áhuga á að koma á námskeið og/eða þekkir einhverja sem hafa áhuga þá endilega deildu þessu áfram til þeirra. Dagsetningar koma hér fljótlega

Tvöfaldar prjónakveðjur,
Guðrún María